Tveir Selfyssingar í landsliðshópi KSÍ

Tveir Selfyssingar í landsliðshópi KSÍ

Tveir Selfyssingar eru í 20 manna landsliðshópi KSÍ sem mætir Svíum í vináttulandsleik í Abu Dhabi, þriðjudaginn 21. janúar næstkomandi. Þetta eru þeir Jón Daði Böðvarsson og Guðmundur Þórarinsson. Í þessum 20 manna hópi eru 5 leikmenn sem ekki hafa leikið A landsleik áður. Ekki er um alþjóðlegan landsleikjadag að ræða og er því landsliðshópurinn samansettur af leikmönnum sem leika með félagsliðum hér á landi og á Norðurlöndunum.

Leikurinn gegn Svíum er fyrsti A-landsleikur Guðmundar en hann á að baki fjölda landsleikja með yngri landsliðunum. Sama er að segja um Jón Daða en hann lék fyrsta A-landsleik sinn gegn Andorra í nóvember 2012. Báðir eru þeir atvinnumenn í norsku deildinni, Jón Daði spilar með Viking frá Stafangri, en Guðmundur með Sarpsborg 08.

Íslendingar og Svíar hafa mæst fimmtán sinnum hjá A landsliðum karla og hafa Svíar haft betur í ellefu skipti, tvisvar hafa þjóðirnar skilið jafnar og tvisvar hafa Íslendingar farið með sigur af hólmi. Síðast mættust þjóðirnar í vináttulandsleik á Gamla Ullevi í maí 2012 og þá höfðu heimamenn betur, 3:2.

Leikið verður í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum, á Mohammed Bin Zayed leikvanginum í Abu Dhabi, sem tekur 42.056 manns í sæti. Leikvangurinn, sem ber nafn krónprinsins í landinu, var opnaður árið 2009 og er heimavöllur knattspyrnuliðsins Al Jazira Club, en þjálfari þess liðs er hinn kunni Ítali Walter Zenga.

Leikurinn fer fram þann 21. janúar næstkomandi kl. 20:00 að staðartíma, sem er kl. 16:00 að íslenskum tíma.

Fréttin er fengin af vef DFS.is.

Hægt er að fylgjast með fréttum af liðinu og sjá myndir á Fésbókarsíðu KSÍ.

Tags: