Valorie verður spilandi þjálfari með Guðjón Bjarna til aðstoðar

Valorie verður spilandi þjálfari með Guðjón Bjarna til aðstoðar

Stjórn knattspyrnudeildar Selfoss hefur ákveðið að kalla Valorie O’Brien til baka úr láni frá HK/Víkingi og verður hún spilandi þjálfari Selfoss í Pepsi-deildinni út leiktíðina.

Valorie hefur leikið með HK/Víkingi í 1. deildinni í sumar auk þess að þjálfa Selfossliðið í Pepsi-deildinni.

Fjórir leikmenn meistaraflokks kvenna eru að fara til Bandaríkjanna í háskóla á næstu vikum og þess vegna var ákveðið að kalla Valorie til baka frá HK/Víkingi og nýta krafta hennar einnig innan vallar. Auk hennar munu fleiri leikmenn bætast í leikmannahópinn á næstu dögum.

Þeir leikmenn sem fara vestur um haf nú síðsumars eru þær Karitas Tómasdóttir, Hrafnhildur Hauksdóttir, Eva Lind Elíasdóttir og Erna Guðjónsdóttir.

Guðjón Bjarni Hálfdánarson, þjálfari meistaraflokks Árborgar í 4. deild karla, hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari Valorie og mun hann sinna því starfi í sumar, samhliða því að stýra Árborg og þjálfa 5. og 7. flokk karla hjá Selfoss.

Valorie O‘Brien reimar á sig skóna fyrir Selfyssinga
Ljósmynd: Umf. Selfoss/GJ

Tags: