Vorleikur Selfoss getrauna 2017

Vorleikur Selfoss getrauna 2017

Laugardaginn 21. janúar verða afhent verðlaun fyrir vor- og haustleik í Selfoss getraunum 2016 ásamt því að boðið verður upp á dýrindis Selfossköku frá Guðnabakaríi.

Nýr hópleikur, vorleikur Selfoss getrauna, hefst laugardaginn 21. janúar. Hægt er að skrá sig til leiks í Tíbrá, Engjavegi 50 (gengið inn um austurenda), þar sem er opið hús frá kl. 11-13 alla laugardaga í vetur.

Einnig er hægt að skrá sig í hópleikinn á slóðinni www.tippleikur.is/selfoss. Þátttökugjald er kr. 7.000 fyrir hópinn (tveir saman í hópi) og verða glæsilegir vinningar fyrir sigurvegara leiksins.

Síðan er að sjálfsögðu hægt að kaupa seðil í leiðinni og freistast til að ná í þann stóra, en um helgina verða um 120 milljónir í pottinum!

Styrkjum félagstengslin og mætum í Tíbrá á laugardagsmorgnum. Þar er alltaf heitt á könnunni og bakkelsi á boðstólum frá Guðnabakaríi. Að sjálfsögðu er enski boltinn í beinni á skjánum.

Láttu vini þína, félaga og fjölskyldu vita og hvettu alla til að mæta með okkur.

Við hlökkum til að sjá þig.