Rósa með þyngstu lyftu íslenskrar konu í réttstöðulyftu á RIG

Rósa með þyngstu lyftu íslenskrar konu í réttstöðulyftu á RIG

Réttstöðulyftumót Ármanns var haldið sl. laugardag í tengslum við Reykjavík International Games í Laugardalshöll. Þrír þekktir erlendir lyftarar tóku þátt í mótinu. Tutta Hansen, frá Noregi, sem er heimsmeistari unglinga, lyfti 180 kg, en hún er aðeins 60 kg að þyngd. Kathrine Holmgaard Bak, frá Danmörku, hefur keppt lengi. Hún vann mótið með 190 kg lyftu. Hún er 63 kg að þyngd. Norðmaðurinn Carl Yngvar Christensen var 161 kg að þyngd og lyfti 370kg við mikinn fögnuð áhorfenda. Hann rétt marði Kathrine á stigum um 0,4 stig.

Fjórar konur frá Umf. Selfoss tóku þátt í mótinu. Rósa Birgisdóttir náði þeim frábæra áfanga að lyfta 190 kg sem er þyngsta lyfta íslenskrar konu í kraftlyftingum og setti þar með enn eitt Íslandsmetið í +84kg þyngdarflokki. Hún bætti sig um 2 kg og fékk 148 alþjóðleg stig fyrir. Jóhanna Eivinsdóttir Christiansen varð stigahæst af okkar konum með 156,2 stig. Hún lyfti 175 kg og setti glæsilegt Íslandsmet í leiðinni í -84 kg þyngdarflokki. Hún reyndi svo við 180 kg en þau fóru ekki upp. Bryndís Ólafsdóttir bætti árangur sinn um 22,5 kg er hún lyfti 152,5 kg, en hún keppti í -84 kg þyngdarflokki. Hennar markmið er að slá Íslandsmetið í öldungaflokki, en hún er nú 42 ára. Fyrir lyftuna fengust 136,7stig. Anna Heiður Heiðarsdóttir keppti á sínu öðru móti. Hún keypti sér stálbrók fyrir mótið og ætlar að hefja keppni í kraftlyftingum. Hún sýndi mikið hugrekki að mæta á alþjóðlegt sjónvarpsmót og mega flestir karlmenn í lyftingum taka hana sér til fyrirmyndar því hún lét allt umstangið ekki hafa minnstu áhrif á sig. Anna Lyfti 125 kg og bætti sig á einum og hálfum mánuði um 13 kg. Hún fékk 103,3 stig, en hún keppti með Rósu í +84 kg þyngdarflokki. Þjálfari kvennanna, Benedikt Magnússon, var hæstánægður með árangurinn, enda tókst flest sem hann lagði upp með.

Mynd: Frá vinstri: Jóhanna Eivinsdóttir, Rósa Birgisdóttir, Bryndís Ólafsdóttir og Anna Heiður Heiðarsdóttir, ásamt Benedikt Magnússyni þjálfara.