Upplýsingar fyrir sundmót

Þegar við förum á sundmót er mjög mikilvægt að hafa með sér:

Sundfatnað: Hér er verið að tala um jafn marga sundboli/skýlur og greinarnar sem við eigum að keppa í, í hverjum hluta, eru. Af hverju? Vegna þess að á milli greina þurfum við að bíða og það er mjög vont/óþægilegt að bíða í blautum og köldum sundbol.

Hlífðarföt/galla: Mjög mikilvægt er að hafa eitthvað til að fara í þegar maður er búinn að synda. Þetta er einnig vegna þess að við þurfum alltaf að bíða og ef við höfum ekkert til að fara í þá verður okkur bara kalt og það er ekki gott.

Sokka og skó: Þetta er einna mikilvægasti hluturinn sem við verðum að hafa með okkur á mót. Það er alltaf þannig að ef okkur er kalt á fótunum verður okkur kalt um allan líkamann og það er eitt sem við viljum ekki á mótum.

Aukasundgleraugu og sundhettu: Það getur alltaf komið fyrir að gleraugun slitni eða við rífum hettuna í upphitun. Þá er nauðsynlegt að hafa a.m.k eina auka með. Það getur verið mjög óþægilegt að standa allt í einu uppi eftir upphitun að eiga ekki hettu eða gleraugu til að nota í keppninni.

Nesti: Hollt og gott nesti, s.s. ávexti, grænmeti, pastabakka, samlokur, ávaxtasafa o.þ.h. (ekki kleinur, súkkulaðikex, kókómjólk o.þ.h.) auk vatnsbrúsa. Verið dugleg að drekka vatn (vegna hita í innilaugum).

Skipulag: Mjög mikilvægt er að hafa skipulag á hlutunum þegar við erum að fara á mót. Gott er að skrifa niður hvað við ætlum að fara með og síðan er alltaf krossað við eða krotað yfir þegar hluturinn er kominn ofan í tösku. Gott er að ganga skipulega frá dótinu ofan í töskuna svo við vitum hvar við settum dótið þegar við komum á mótið.

Muna svo eftir að ganga ALLTAF frá fötunum ykkar jafnóðum ofan í töskuna á milli sundgreina.
Helst að hafa allan ykkar fatnað merktan með nafni og félagi.
Setjið svo þennan miða merktan ykkur í plast og geymið í töskunni til að lesa yfir þegar þið tínið til í töskuna heima og svo aftur áður en þið haldið heim.

Minnisblað fyrir keppnisfólk í sundi
* 2-3 stk. sundbolir eða skýlur. Fer eftir fjölda keppnisgreina
* 2 stk. sundgleraugu. Æfingagleraugu og strekkt keppnisgleraugu
* Sundhettur 1-2 stk.
* Handklæði; 2 baðhandklæði.
* Plastpoka til að geyma blautan fatnað í. Hafa pokann alltaf í töskunni
* 1-2 T-bolir
* Stuttbuxur
* Íþróttagalli
* Skó sem má nota inn á sundlaugarsvæðinu
* 2 pör af sokkum, það er mikilvægt að vera þurr á tánum
* Góða tösku