Ingibjörg Erla hlaut styrk úr Afrekskvennasjóði

Ingibjörg Erla hlaut styrk úr Afrekskvennasjóði

Í dag var úthlutað úr Afrekskvennasjóði Íslandsbanka og ÍSÍ fyrir árið 2014. Taekwondokonan Ingibjörg Erla Grétarsdóttir var ein þriggja kvenna sem hlaut styrk að þessu sinni.

Ingibjörg Erla sem keppir fyrir Ungmennafélag Selfoss hefur verið ein fremsta taekwondokona landsins um árabil þrátt fyrir ungan aldur. Ingibjörg Erla er margfaldur Íslands- og bikarmeistari og fjórum sinnum hefur hún hlotið nafnbótina Taekwondokona ársins. Ingibjörg Erla hefur fjórum sinnum orðið Norðurlandameistari í grein sinni og náð góðum árangri á alþjóðlegum mótum. Ingibjörg Erla er í Team Nordic sem er hópur fremstu taekwondo keppenda norðurlanda. Ingibjörg Erla keppti fyrir skemmstu á EM U21 og mun á komandi mánuðum taka þátt í alþjóðlegum mótum þar sem keppt er um stig sem gilda til þátttöku á Ólympíuleikum.

Auk Ingibjargar Erlu hlaut eitt landsliðsverkefni og tvær aðrar afrekskonur í íþróttum styrk úr sjóðnum að þessu sinni. Afrekskonurnar fá 500.000 kr. hver og Körfuknattleikssamband Íslands hlýtur 1 milljón kr.

Markmið og tilgangur sjóðsins er að styðja við bakið á afrekskonum í íþróttum og gera þeim betur kleift að stunda sína íþrótt og ná árangri. Stjórn sjóðsins skipa þær Helga H. Magnúsdóttir, Elsa Nielsen og Kristín Rós Hákonardóttir. Umsóknir um styrk voru að þessu sinni 37 talsins. Þetta er tíunda úthlutun sjóðsins sem hefur nú úthlutað í heild 25 milljónum króna í styrki til afrekskvenna.

Úthlutun Afrekskvennasjóðs Íslandsbanka og ÍSÍ 2014

Ungmennafélag Selfoss vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til Íslandsbanka og ÍSÍ fyrir styrkveitinguna. Hún bæði styrkir og hvetur Ingibjörgu Erlu til dáða á næstu misserum auk þess sem þetta er glæsileg viðurkenning á öflugu starfi Taekwondodeildar Umf. Selfoss sem og félagsins í heild sinni.

Ingibjörg Erla (þriðja f.h.) við afhendingu styrkjanna í Íslandsbanka í dag.
Ljósmynd af vef Íslandsbanka.