Taekwondodeild Umf. Selfoss með tvo Norðurlandameistara

Taekwondodeild Umf. Selfoss með tvo Norðurlandameistara

Um liðna helgi var haldið Norðurlandamót í Taekwondo í Reyjanesbæ. Umf. Selfoss átti sjö keppendur sem allir stóðu sig með stakri prýði og voru félagi sínu til mikils sóma.

Uppúr stendur þó að Daníel Jens Pétursson og Ingibjörg Erla Grétarsdóttir unnu bæði til gullverðlauna í sínum flokkum. Daníel í Senior flokki karla -80 kg, sem jafnframt var sterkasti flokkurinn.

Daníel vann Thomas Bruvik frá Noregi með 12 stigum gegn 6, en þess má geta að Thomas er margfaldur heims- og Evrópumeistari upp alla þyngdarflokka.
Þar næst keppti Daníel til úrslita við Kristmund Gíslason og sá bardagi fór 6-5. Daníel hafði fengið högg á vinstra hné í bardaganum við Thomas og ákvað að hlífa sér í bardaganum við Kristmund en gætti þess þó að hleypa honum ekki framúr sér.

Ingibjörg Erla vann sinn flokk með miklum yfirburðum og það er greinilegt að hún er okkar allra besta sparring kona. Hún vann Maríu G. Sverrisdóttur með 19 stigum gegn 1 og Helmi Harkonen frá Finnlandi með 11 stigum gegn 4.

Það er greinilegt að það er mikil gróska í Taekwondodeild Umf. Selfoss sem státar af því að vera fjölmennasta taekwondodeildin innan vébanda TKÍ.

PJ

Ingibjörg Erla og Daníel Jens með verðlaun sín.

Fyrir neðan má sjá Daníel Jens í glæsilegum bargdaga

Myndir: Umf. Selfoss/Tryggvi Rúnarsson.

Daníel Jens í bardaga