Tveir Selfyssingar íþróttamenn ársins

Tveir Selfyssingar íþróttamenn ársins

Það var mikið um dýrðir í Silfurbergi í Hörpu 30. desenber sl. þegar Eygló Ósk Gústafsdóttir sundkona var útnefnd íþróttamaður ársins 2015 af Samtökum íþróttafréttamanna. Gylfi Þór Sigurðsson knattspyrnumaður var í öðru sæti og Hrafnhildur Lúthersdóttir sundkona var í þriðja sæti.ÍSÍ veitti íþróttamönnum einstakra íþróttagreina viðurkenningar, en allar upplýsingar um þá verðlaunahafa eru aðgengilegar á heimasíðu ÍSÍ.

Tveir einstaklingar voru teknir inn í Heiðurshöll ÍSÍ þau Sigríður Sigurðardóttir handknattleikskona og Ríkharður Jónsson knattspyrnumaður.

Samtök íþróttafréttamanna veittu nú í fjórða sinn viðurkenningu til þjálfara ársins og var það Heimir Hallgrímsson sem hlaut þann heiður.  Viðurkenning til liðs ársins fór að þessu sinni til íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.

HSK óskar öllum verðlaunahöfum kvöldsins til hamingju með viðurkenningar sínar.

Greint er frá því á heimasíðu HSK að sex Sunnlendingar voru kjörnir íþróttamenn ársins af sínu sérsambandi og hafa líklega aldrei verið fleiri. Þrír Hvergerðingar voru kjörnir íþróttamenn ársins af sínu sérsambandi, þeir Úlfar Jón Andrésson, íshokkímaður, Hafsteinn Valdimarsson, blakmaður og Snorri Þór Árnason, akstursíþróttamaður. Guðmundur Friðrik Björgvinsson, Efri-Rauðalæk, var kjörinn knapi ársins og þá voru tveir liðsmenn Ungmennafélags Selfoss kjörnir íþróttamenn síns sérsambands, þær Ingibjörg Erla Grétarsdóttir, taekwondokona og Gyða Dögg Heiðarsdóttir, mótokrosskona, sem búsett er í Þorlákshöfn.

Útlistun sérsambanda á afrekum íþróttamannanna Umf. Selfoss má lesa hér að neðan.

Gyða Dögg Heiðarsdóttir

Mótorhjóla- og snjósleðakona ársins – Gyða er Íslandsmeistari í mótokrossi kvenna árið 2015 og sigraði allar keppnir í mótaröðinni með nokkrum yfirburðum. Gyða er ung að aldri en hefur æft stíft undanfarin ár og á framtíðina fyrir sér í íslensku mótokrossi.

Ingibjörg Erla Grétarsdóttir

Taekwondokona ársins – Ingibjörg Erla hefur náð einstökum árangri á mótum erlendis á árinu en þó báru hæst silfurverðlaun hennar á gríðarlega sterku móti, Serbian Open, sem er hluti af stigamótaröð Alþjóða Taekwondosambandsins, WTF. Er þetta í fyrsta skipti sem Íslendingur vinnur til verðlauna á þessari mótaröð, en þar sem kemur saman sterkasta taewkondofólk heimsins hverju sinni. Önnur afrek Ingibjargar á árinu eru m.a. þau að hún varð Íslands- og Norðurlandameistari. Ingibjörg er okkar allra besta bardagakona í taekwondo um þessar mundir og mun hún keppa á lokaúrtökum fyrir Ólympíuleikana sem haldnar verða í Tyrklandi um miðjan janúar.