Æfingar hjá Umf. Selfoss frá 4. maí

Æfingar hjá Umf. Selfoss frá 4. maí

Það voru svo sannarlega gleðitíðindi sem bárust okkur í lok vetrar þegar heilbrigðisráðherra kynnti breytingar á samkomubanni. Í því felst að fjöldamörk samkomubanns hækka úr 20 í 50 manns 4. maí næstkomandi. Frá sama tíma falla alveg niður takmarkanir við íþróttaiðkun og æskulýðsstarf barna á leik- og grunnskólaaldri. Það þýðir að íþróttastarf yngri iðkenda Umf. Selfoss fer aftur í fullan gang mánudaginn 4. maí.

Á sama tíma geta æfingar fullorðinna einnig farið í gang en þurfa að lúta skilyrðum. Þar á meðal mega mest sjö einstaklingar vera með þjálfara á útisvæði sem miðast við hálfan fótboltavöll en fjórir með þjálfara á innisvæði sem miðast við handboltavöll. Notkun á búningsaðstöðu innanhúss er óheimil og ávallt er hvatt til að tveggja metra nándarreglan verði virt.

Sjá nánar í frétt á vef UMFÍ

Frá lokum mars hafa deildir Umf. Selfoss veitt iðkendum þjónustu í formi fjarþjálfunar til að koma til móts við iðkendur í samkomubanni. Yfirþjálfarar í samstarfi við stjórnir og þjálfara deilda eru nú á fullu að skipuleggja starfsemi okkar að loknum samkomubanni í samráði við forsvarsmenn íþróttamannvirkja á Selfossi. Mun yfirþjálfari hverrar deild fyrir sig senda frá sér tilkynningu um nánara skipulag æfinga í vikunni. Horft er til þess að æfingar verði í samræmi við æfingatíma vetrarins en þó alltaf í samræmi við tilmæli sóttvarnarlæknis.

Frétt á vef Sveitarfélagsins Árborgar

Að ýmsu er að hyggja fyrir stjórnendur og þjálfara félagsins þegar íþróttastarf fer í gang á ný. Gleðinni og félagsskapnum sem fylgir ábyrgð. Umf. Selfoss treystir deildum félagsins fullkomlega til að finna bestu mögulegu lausnirnar fyrir alla aldurshópa með það að leiðarljósi að allir séu með og enginn iðkandi skilinn út undan í starfinu.

Félagið vill koma á framfæri þakklæti til þjálfara, iðkenda og forráðamanna sem hafa brugðist einstaklega vel við fordæmalausum aðstæðum, verið lausnamiðaðir í leiðum til að sinna æfingum með hag samfélagsins að leiðarljósi.

Þjálfarar Umf. Selfoss hlakkar mikið til að taka á móti iðkendum okkar aftur.


Nánar er fjallað um takmarkanir hér að neðan

Þetta er meðal þess sem leiðir af nýrri auglýsingu heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Rýmkun á reglum um takmarkanir á skólahaldi og samkomum er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.

Áður hafði verið talað um að íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri yrði leyft utandyra. Með tilslökunum sem taka eiga gildi 4. maí stefnir í að íþróttastarf barna verði leyft bæði innan- og utandyra.

Aflétting samkomubanns í íþróttastarfi hefur áhrif á um 70 þúsund börn á leik- og grunnskólaaldri og álíka fjölda iðkenda í skipulögðu íþróttastarfi 17 ára og eldri.

Almannavarnir og stjórnvöld hafa átt gott samráð við íþróttahreyfinguna með tilhögun afléttingarinnar.

Aflétting samkomubanns og minnispunktar sóttvarnalæknis í stuttu máli:

Íþrótta- og æskulýðsstarf barna á leik- og grunnskólastigi:

 • Engar fjöldatakmarkanir verða settar á iðkendur.
 • Öll íþrótta- og æskulýðsstarfsemi, inni og úti, verði leyfð.
 • Skíðasvæði verði opin fyrir æfingar barna og unglinga.
 • Sundlaugar, búnings- og sundaðstaða verði opin fyrir sundæfingar barna og unglinga.
 • Keppni í íþróttum barna á leik- og grunnskólastigi verði heimil án áhorfenda.
 • Hvatt verði til sérstaks hreinlætis og handþvottar.
 • Tveggja metra nándarreglan verði virt eins og hægt er

Íþróttastarf fullorðinna:

 • Mest verði sjö einstaklingar með þjálfara á útisvæði sem miðast við hálfan fótboltavöll.
 • Mest verði fjórir einstaklingar með þjálfara á innisvæði sem miðast við handboltavöll.
 • Notkun búningsaðstöðu innanhúss verði óheimil.
 • Hvatt verði til að tveggjametra nándarreglan verði virt.
 • Keppni í íþróttum fullorðinna verði óheimil nema ef hægt sé að uppfylla skilyrði um tveggja metra nándarreglu og að keppni sé án áhorfenda.
 • Sundæfingar fyrir fullorðna verði að hámarki fyrir sjö einstaklinga. Notkun búnings- og sturtuaðstöðu verði leyfð.
 • Áfram verði hvatt til sérstaks hreinlætis, handþvottar og notkunar handspritts.
 • Sundlaugar verði lokaðar almenningi.

Æfingagjöld og samkomubann

Auk þess að veita iðkendum þjónustu í formi fjarþjálfunar til að koma til móts við iðkendur í samkomubanni telur Umf. Selfoss farsælast að lengja tímabil allra deilda félagsins í barna- og unglingastarfi, til að mæta þeim æfingum sem fallið hafa niður. Æfingar í vetrardeildum munu því lengjast inn í júní.

Einnig fagnar félagið viðbrögðum Sveitarfélagsins Árborgar vegna Covid-19.

Frístundstyrkur Árborgar hækkar um kr. 10.000

Allar nánari upplýsingar um æfingagjöld og samkomubann má fá hjá framkvæmdastjóra félagsins í síma 482-2477 eða í gegnum netfangið umfs@umfs.is.