Æfingar hjá Umf. Selfoss með hefðbundnu sniði

Æfingar hjá Umf. Selfoss með hefðbundnu sniði

Útlit er fyrir að æfingar hjá Umf. Selfoss verði með hefðbundnu sniði á morgun. Íþróttahreyfingin greinir frá því að ýmsar takmarkanir séu á íþróttastarfi til að hefta útbreiðslu kórónuveiru. Þær takmarkanir sem nú bætast við ná hins vegar ekki til barna í leik- og grunnskólum.

Reglugerðir þær sem heilbrigðisráðherra hefur staðfest um takmarkanir á samkomuhaldi og skólastarfi leiða ekki af sér breytingu á starfi yngri flokka (iðkendur fæddir 2005 og síðar) og ekki hafa afgerandi áhrif á starf eldri iðkenda utan þeirra takmarkana sem eru á fjölda áhorfenda.

Engar hömlur gilda um starf hjá börnum í leik- og grunnskóla sem eru fædd 2005 og síðar. Gildir hið sama um æskulýðsstarf, íþróttir og tómstundir leik- og grunnskólabarna.

Keppnisíþróttir með snertingu verða leyfðar með hámarksfjölda 50 einstaklinga að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Óheimilt er að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum innandyra. Utandyra er heimilt að hafa áhorfendur, allt að 100 í hverju rými, að því gefnu að gestir sitji í númeruðum sæti sem skráð eru á nafn og noti andlitsgrímu.

Af þessu má vera ljóst að æfingar hjá Umf. Selfoss fara fram með hefðbundnum hætti þangað til tilkynning um annað verður gefin út. Í því samhengi er rétt að vekja athygli á að „hefðbundið“ miðast að sjálfsögðu við að gæta fyllstu sóttvarna líkt og þjóðin hefur tamið sér frá því að veiran greindist á landinu í upphafi árs.

Vegna fjölda einstaklinga í sóttkví á Selfossi er rétt að vekja sérstaka athygli á að einstaklingur í sóttkví má ekki fara til vinnu, skóla eða sækja æfingar. Rétt er að þjálfarar hugi vel að því næstu daga.

Tags: