Allir velkomnir á 80 ára afmælishátíð Umf. Selfoss

Allir velkomnir á 80 ára afmælishátíð Umf. Selfoss

Eins og fram hefur komið fagnar Ungmennafélag Selfoss 80 ára afmæli í ár, en félagið var stofnað 1. júní 1936. Í tilefni þessa merka áfanga heldur félagið glæsilega afmælishátíð laugardaginn 28. maí þar sem lögð verður áhersla á hreyfingu og gleði fyrir alla fjölskylduna.

Afmælishátíðin hefst með Grýlupottahlaupinu kl. 11:00 og sérstök hátíðardagskrá verður í íþróttahúsinu kl. 14:00. Afmælishátíðinni lýkur á Selfossvelli kl. 16:00 þegar mfl. kvenna tekur á móti Blikum í Pepsi-deildinni en í tilefni afmælisins verður frítt á völlinn. Nánar er fjallað um dagskrá hátíðarinnar hér fyrir neðan.

Við hvetjum Selfyssinga til að fagna afmælinu með okkur og hlökkum til að sjá ykkur á afmælishátíðinni á laugardag.

Dagskrá afmælishátíðarinnar

Kl. 11:00 Grýlupottahlaup frjálsíþróttadeildar Selfoss

Seinasta Grýulupottahlaup ársins fer fram á Selfossvelli og hefst skráning kl. 10:30 í Tíbrá, félagsheimili Umf. Selfoss.

Kl. 12:00 Hreystibraut fyrir alla fjölskylduna

Hreystibraut frá Skólahreysti opnar í íþróttahúsi Vallaskóla þar sem gestir geta spreytt sig á skemmtilegum þrautum sem reyna á hreysti  og þrek. Brautin verður opin til kl. 17:00

Kl. 14:00 Hátíðardagskrá

Hátíðardagskrá í íþróttahúsi Vallaskóla þar sem fluttar verða stuttar og skemmtilegar ræður ásamt því að góðir félagar Umf. Selfoss verðar heiðraðir. Meistaraflokkur Selfoss í hópfimleikum verður með glæsilega sýningu og rúsínan í pylsuendanum er æsispennandi keppni allra deilda félagsins í hreystibrautinni.

Kl. 15:00 Kaffihlaðborð og grillaðar pylsur

Boðið verður upp á glæsilega afmælistertu frá Guðnabakaríi ásamt kleinum og snúðum frá HP kökugerð í mötuneyti Vallaskóla. Heitt á könnunni þar til tertan klárast.

Kveikt verður á grillinu á Selfossvelli þar sem boðið verður upp á SS-pylsur, Kókómjólk frá MS og safa frá Vífilfelli. Heitt í kolunum allan tímann.

Landsliðsfólk Selfoss verður á staðnum með áritaðar veggmyndir.

Kl. 16:00 Selfoss-Breiðablik í Pepsi-deildinni

Það er frítt á JÁVERK-völlinn þar sem meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu tekur á móti Íslandsmeisturum Breiðabliks í Pepsi-deildinni. Áfram Selfoss!


Afmælishátíðin er hluti af Hreyfiviku UMFÍ.