Allt íþróttastarf fellur niður

Allt íþróttastarf fellur niður

Eftir að nýjar sóttvarnaráðstafanir voru kynntar í dag er ljóst að allt íþróttastarf hjá Umf. Selfoss fellur niður næstu 2-3 vikurnar eða til 17. nóvember.

Samkvæmt reglunum, sem taka gildi á miðnætti í kvöld, verður íþróttastarf verður óheimilt og sundlaugum lokað um allt land. Til viðbótar þrengjast fjöldatakmarkanir úr 20 manns í 10. Reglur eru hertar og ná jafnt til barna sem fullorðinna, einungis börn fædd 2015 og yngri eru undanþegin 2 metra reglu og grímuskyldu.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis kemur fram að smit í samfélaginu sé enn mikið, þrátt fyrir hertar sóttvarnaaðgerðir sem gripið var til 20. október. Því sé hætta á að hópsýkingar brjótist út og valdi enn meira álagi á heilbrigðiskerfið sem sé mikið fyrir. 

Íþróttastarf óheimilt

Í reglugerð heilbrigðisráðherra sem birt var í dag er áréttað frekar að íþróttir, þar með talið æfingar og keppnir, barna og fullorðinna hvort sem er innan- eða utandyra, með eða án snertingar eru óheimilar. Einstaklingsbundnar æfingar án snertingar eru heimilar, svo sem útihlaup og sambærileg hreyfing.

Sem fyrr hvetur Ungmennafélag Selfoss deildir félagsins til að huga vel að iðkendum sínum meðan við í sameiningu tökumst á við faraldurinn sem herjar á heiminn. Hvetjum iðkendur og fjölskyldur þeirra til hreyfingar og miðlum æfingum til iðkenda sem þeir geta framkvæmt meðan samkomubann stendur yfir.

Líkt og í vor kalla nýjar hindranir á nýjar lausnir og leggur Umf. Selfoss áherslu á mikilvægi þess að Selfyssingar, Sunnlendingar og landsmenn allir haldi áfram að hreyfa sig þrátt fyrir að skipulagt íþróttastarf sé ekki til staðar. Þannig munu deildir Umf. Selfoss halda áfram að þjónusta sína iðkendur með þeim hætti sem mögulegt er, með fjar- og heimaæfingum og hvetur alla til hvers konar útivistar og hreyfingar sem rúmast innan þeirra takmarka sem eru í gildi.

Frétt af vef ÍSÍ

Frétt af vef UMFÍ