Átta afreksstyrkir til Umf. Selfoss

Átta afreksstyrkir til Umf. Selfoss

Stjórn Verkefnasjóðs HSK hefur úthlutað tæpum þremur milljónum til 35 verkefna á sambandssvæði sínu en alls bárust 49 umsóknir til sjóðsins í ár. Tilgangur sjóðsins er m.a. að styrkja félags- og íþróttastarf á sambandssvæði Héraðssambandsins Skarphéðins.

Alls fékk 21 verkefni á vegum Umf. Selfoss styrk úr Verkefnasjóðnum en úthlutað var úr honum fyrir árið 2015 um miðjan október. Greint er frá styrkveitingum á vefsíðu HSK.

Í samræmi við umræðu og samþykkt síðasta héraðsþings HSK, er aukin áhersla lögð á styrki til afreksfólks og fá átta einstaklingar,  sem allir hafa verið valdir í A-landslið fullorðinna 120.000 styrk. Þá var styrkur til landsliðsfólks hækkaður úr 20.000 í 35.000 kr. Samhliða þessari ákvörðun var ákveðið að hætta að veita styrki til keppnisferða erlendis.

Auk afreksstyrkja, landsliðsverkefna og menntunar þjálfara og dómara fékk Umf. Selfoss úthlutað vegna samstarfs um þjálfararáðstefnu í Árborg og námskeiðshalds. Alls fékk Selfoss úthlutað til starfsemi sinnar kr. 2.170.000-.

Aðalstjórn Umf. Selfoss og deildir félagsins vilja koma á framfæri sérstöku þakklæti til HSK fyrir styrkina sem nýtast félaginu og félagsmönnum afar vel.