Barbára Sól og Haukur íþróttafólk Árborgar 2019

Barbára Sól og Haukur íþróttafólk Árborgar 2019

Knattspyrnukonan Barbára Sól Gísladóttir og handknattleiksmaðurinn Haukur Þrastarson, bæði úr Umf. Selfoss, voru útnefnd íþróttakona og íþróttakarl Sveitarfélagsins Árborgar á árlegri uppskeruhátíð frístunda- og menningarnefndar Árborgar sem fram fór á Hótel Selfossi milli hátíða.

Barbára Sól er lykilleikmaður hjá Selfoss en liðið hampaði í sumar Mjólkurbikar KSÍ eftir glæstan sigur á KR í framlengdum úrslitaleik. Í Pepsi Max deildinni varð liðið í þriðja sæti og jafnaði sinn besta árangur frá upphafi. Barbára spilaði alla leiki liðsins í deild og bikar á tímabilinu og lék þar að auki alla þrettán leiki U19 ára liðs Íslands á þessu ári.

Haukur er lykilmaður í liði Selfoss sem landaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í vor. Hann var jafnframt valinn efnilegasti leikmaður Olísdeildarinnar. Á yfirstandandi tímabili er Haukur markahæsti leikmaður deildarinnar með 114 mörk. Haukur er fastamaður í landsliði Íslands og lék í janúar með liðinu á HM í Þýskalandi og varð þar með yngsti leikmaður í sögu Íslands til að leika á stórmóti í handbolta.

Íþróttafólk Árborgar 2019 Barbára Sól og Haukur.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Gissur