Elvar Örn og Perla Ruth íþróttafólk Umf. Selfoss

Elvar Örn og Perla Ruth íþróttafólk Umf. Selfoss

Handknattleiksfólkið Elvar Örn Jónsson og Perla Ruth Albertsdóttir voru valin íþróttakarl og íþróttakona ársins 2017 hjá Ungmennafélagi Selfoss. Verðlaunahátíð Ungmennafélags Selfoss var haldin í félagsheimilinu Tíbrá föstudaginn síðastiliðinn. Sú hefð hefur verið að veita verðlaunin á aðalfundi Ungmennafélags að vori, en ákveðið var að halda sérstaka verðlaunahátíð í lok árs.

Perla Ruth hefur verið lykilleikmaður í ungu liði Selfoss sem tryggði sér áframhaldandi sæti í Olísdeildinni í vor og situr í 6. sæti deildarinnar sem stendur. Perla hefur skorað um 150 mörk á árinu og var valin nokkrum sinnum í æfingahóp A-landsliðsins á árinu og lék þrjá fyrstu landsleiki sína í nóvember, var alltaf í byrjunarliði og skoraði 10 mörk.

Elvar Örn er fyrirliði ungs liðs meistaraflokks Selfoss í handbolta, sem er stendur í 4. sæti Olísdeildarinnar. Elvar var í lykilhlutverki með U-21 landsliðinu í forkeppni og lokakeppni HM í sumar. Hann hefur einnig verið valinn í A-landsliðshópinn tvisvar sinnum á árinu og  var valinn besti miðjumaður Olisdeildarinnar síðastliðið vor.

Á verðlaunahátíðinni var íþróttafólk ársins í flestum deildum félagsins einnig heiðrað, en hver deild Umf. Selfoss tilnefndi íþróttakarl og íþróttakonu í sinni deild.

Frjálsar: Kristinn Þór Kristinsson og Guðrún Heiða Bjarnadóttir

Handknattleikur: Elvar Örn Jónsson og Perla Ruth Albertsdóttir

Júdó: Egill Blöndal

Knattspyrna: Þorsteinn Daníel Þorsteinsson og Kristrún Rut Antonsdóttir

Mótokross: Gyða Dögg Heiðarsdóttir

Sund: Sara Ægisdóttir

Taekwondo: Brynjar Logi Halldórsson og Ingibjörg Erla Grétarsdóttir


Íþróttafólk deilda ásamt íþróttakarli og íþróttakonu ársins hjá Umf. Selfoss

Á verðlaunahátíðinni voru einnig þau hjónin Bogi Karlsson og Kristín Guðmundsdóttir sæmd silfurmerki félagsins en þau hafa stutt við bakið á öllum deildum ungmennafélagsins um áraraðir og Bogi hefur sinnt ýmsum stjórnar- og nefndarstörfum í gegnum tíðina.


Guðmundur Kr. Jónsson, formaður Umf. Selfoss sæmdi þau Boga Karlsson og Kristínu Guðmundsdóttir silfurmerki félagsins.