Eva María og Hergeir íþróttafólk Umf. Selfoss 2021

Eva María og Hergeir íþróttafólk Umf. Selfoss 2021

Handknattleiksmaðurinn Hergeir Grímsson og frjálsíþróttakonan Eva María Baldursdóttir voru valin íþróttakarl og íþróttakona ársins 2021 hjá Ungmennafélagi Selfoss en tilkynnt var um valið á stuttri og fámennri verðlaunahátíð í Selinu á Selfossi í gær.

Hergeir er fyrirliði Selfoss í Olísdeild karla sem verið hefur í toppbaráttu síðastliðið ár. Hergeir hefur sannað sig sem einn besti leikmaður deildarinnar í sinni stöðu á báðum endum vallarins og var einnig í lykilhlutverki í Evrópuleikjum Selfoss í haust. Hergeir var markahæsti leikmaður Selfoss á síðasta keppnistímabili ásamt því að vera valinn sóknarmaður ársins á lokahófi deildarinnar síðastliðið sumar.

Eva María varð Íslandsmeistari kvenna í hástökki utanhúss síðastliðið sumar auk þess sem hún varð Íslandsmeistari í sínum aldursflokki í hástökki, bæði innan- og utanhúss. Hún sigraði einnig í hástökki á Reykjavík International Games og bætti sinn persónulega árangur innanhúss með því að stökkva yfir 1,78 m. Það er hæsta stökk sem íslensk kona stökk árið 2021, bæði innan- og utanhúss. Eva María er í stórmótahópi FRÍ og landsliði Íslands í frjálsum íþróttum.

Allar deildir Umf. Selfoss gátu tilnefnt íþróttakarl og íþróttakonu í sinni deild. Auk Evu Maríu og Hergeirs voru eftirfarandi einstaklingar tilnefndir: Fimleikafólkið Karólína Helga Jóhannsdóttir og Ævar Kári Eyþórsson, frjálsíþróttakarlinn Daníel Breki Elvarsson, handknattleikskonan Tinna Sigurrós Traustadóttir, júdómaðurinn Egill Blöndal, knattspyrnufólkið Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir og Dagur Jósefsson, mótokrossmaðurinn Alexnder Adam Kuc og taekwondofólkið Björn Jóel Björgvinsson og Dagný María Pétursdóttir.

Á mynd með frétt eru f.v. Guðmundur Kr. Jónsson starfandi framkvæmdastjóri Umf. Selfoss, Hergeir, Viktor S. Pálsson formaður Umf. Selfoss, Eva María og Aðalbjörg Skúladóttir bókari Umf. Selfoss.

Ljósmynd: Umf. Selfoss/Guðmundur Karl