Flugeldasýning á þrettándanum

Flugeldasýning á þrettándanum

Jólin verða kvödd á Selfossi með glæsilegri flugeldasýningu mánudaginn 6. janúar. Þrátt fyrir að þrettándagleðin á Selfossi verði með óhefðbundnu sniði að þessu sinni býður Ungmennafélag Selfoss upp á glæsilega flugeldasýningu í góðu samstarfi við Sveitarfélagið Árborg og Björgunarfélag Árborgar.

Sýningin hefst kl. 20:30 á Fjallinu eina við íþróttavöllinn á Selfossi.

Þar sem flugeldasýningarnar eiga að sjást vel á stóru svæði og í góðu veðri eins og spáin gerir ráð fyrir er gengið út frá að fólk njóti sýningarinnar heiman frá sér eða úr bílum sínum til að allra sóttvarna sé gætt.

Þeim sem kjósa að njóta flugeldasýningarinnar úr bílum sínum er bent á bílastæði við íþróttahúsið Iðu og Fjölbrautaskóla Suðurlands auk góðra bílastæða við leikskólann Hulduheima. Þá eru og bílastæði við Tíbrá og Selið sem og við Engjaveg.

Íbúar og gestir sem kjósa að vera gangandi eru beðnir um að virða fjöldatakmarkanir, gæta vel að nándartakmörkunum, bera andlitsgrímur, dreifa sér vel um svæðið og forðast óþarfa samskipti líkt og sóttvarnarreglugerðir segja til um.

Ungmennafélag Selfoss og Sveitarfélagið Árborg

Ljósmynd: Pétur Jökull Pétursson