Forvarnardagur Árborgar 2019

Forvarnardagur Árborgar 2019

Miðvikudaginn 2. október síðastliðinn fór Forvarnardagur Árborgar fram í sjötta skipti. Forvarnardagurinn er haldinn á landsvísu fyrsta miðvikudag í október ár hvert en grunnskólarnir þrír í Árborg hafa haldið sérstaklega upp á daginn með því að setja upp dagskrá hannaða af forvarnarteymi Árborgar, deildarstjórum unglingastiga grunnskólanna og Ungmennafélagi Selfoss.

Í ár var dagskráin mjög metnaðarfull eins og fyrri ár en það eru nemendur 9. bekkja skólanna sem eru þátttakendur í deginum. Nemendur hittust í Bíóhúsinu á Selfossi í upphafi dags þar sem þeir hlýddu á hvatningarorð frá Alfreð Elíasi Jóhannssyni, þjálfara meistaraflokks kvenna í knattspyrnu og ávarp frá forseta Íslands. Að því loknu var nemendum skipt í hópa, þvert á skóla þar sem þeir fóru á milli stöðva sem allar höfðu mikið og gott forvarnargildi. Nemendur fengu fræðslu frá lögreglunni, félagsmiðstöðinni Zelsíuz, Björgunarfélagi Árborgar, World Class og CrossFit á Selfossi. Að lokinni dagskrá var nemendum boðið í grillaðar pylsur og fernudrykk.

Undirbúningshópinn skipuðu Gunnar E. Sigurbjörnsson, frístunda- og forvarnafulltrúi Sv. Árborgar, Páll Sveinsson, aðstoðarskólastjóri Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri, Steinunn H. Eggertsdóttir, deildarstjóri efsta stigs Sunnulækjarskóla, Guðmundur Sigmarsson, deildarstjóri efsta stigs Vallaskóla og Gissur Jónsson, framkvæmdastjóri Umf. Selfoss.