Framkvæmdanefnd ULM á Selfossi 2020 tekur til starfa

Framkvæmdanefnd ULM á Selfossi 2020 tekur til starfa

Framkvæmdanefnd unglingalandsmóts UMFÍ á Selfossi 2020 hefur tekið til starfa, en fyrsti fundur nefndarinnar var haldinn á Selfossi fimmtudaginn 4. október.

Nefndina skipa þau Bergur Guðmundsson, Umf. Selfoss, Gissur Jónsson, framkvæmdastjóri Umf. Selfoss, Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar, Guðmundur Jónasson, gjaldkeri HSK, Guðríður Aadnegard, formaður HSK, Helgi S. Haraldsson, varaformaður HSK, Jakob Burgel Ingvarsson, ungmennaráði Árborgar, Ragnheiður Högnadóttir, fulltrúi UMFÍ og Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Umf. Selfoss. Varamaður verður Veigar Atli Magnússon, ungmennaráði  Árborgar.

Þá munu Bragi Bjarnason, menningar- og frístundafulltrúi Árborgar, Engilbert Olgeirsson, framkvæmdastjóri HSK og Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri ULM,  starfa með nefndinni.

Á fyrsta fundi nefndarinnar var Þórir skipaður formaður nefndarinnar, Gissur var kosinn ritari og Guðmundur gjaldkeri.

Unglingalandsmót UMFÍ hefur einu sinni áður verið haldið á Selfossi, en það var árið 2012. Þá tóku um 2.000 keppendur þátt og gera má ráð fyrir svipuðum fjölda um verslunarmannahelgina árið 2020, nánar tiltekið 31. júlí – 2. ágúst.

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, mætti á fyrsta fund nefndarinnar, á myndinni eru einnig (f.v.) þau Jakob Burgel, Ragnheiður og Gissur, en þau hafa ekki áður átt sæti í framkvæmdanefndum landsmóta hjá HSK.
Ljósmynd: HSK/Engilbert Olgeirsson