Glæsileg þjálfararáðstefna í Árborg

Glæsileg þjálfararáðstefna í Árborg

Um seinustu helgi var haldin þjálfararáðstefna í Árborg undir kjörorðunum samvinna, liðsheild og árangur. Þar voru saman komnir stór hluti þjálfara sem vinna við þjálfun í sveitarfélaginu. Þetta var glæsileg ráðstefna sem samanstóð af fjölbreyttum fyrirlestrum, umræðum, hópavinnu og hópefli.

Kjartan Björnsson formaður menningarmálanefndar ýtti úr vör og hvatti þjálfara til dáða í þeim störfum sem þeir taka sér fyrir hendur. Jafnframt ræddi hann um mikilvægi þess að öll börn í sveitarfélaginu hafi kost á að stunda íþróttir við hæfi.

Páll Ólafsson og Anný Ingimarsdóttir fjölluðu um mikilvægi góðra samskipta við börn og jafnframt um skyldu þjálfara að tilkynna grun um erfiðleika sem börn ganga í gegnum á lífsleiðinni. Sérstaklega var athyglisverð sú staðreynd Páls að skv. sænskri rannsókn kostar einstaklingur sem dettur út úr íþróttastarfi og skóla samfélagið 75 milljónir sænskra króna. Það er því til mikils að vinna að halda börnum og unglingum á beinu brautinni. Þar kemur íþrótta- og tómstundastarf sterkt inn.

Gunnar Páll, Sigurður Ragnar og Hrafnhildur Ósk fjölluðu mikið um þjálfun íþróttamanna. Allt frá grunnþjálfun byrjenda upp í þjálfun afreksmanna. Mikilvægt er í öllu því ferli að muna eftir einstaklingnum sem er á bakvið hvern einasta iðkenda.

Í lok föstudagsins fóru þátttakendur í afar skemmtilegu hópefli. Þannig fengu nokkrir Selfyssingar heimsókn fólks sem vildi taka mynd af sér leysa hin ýmsu verkefni allt frá því að spæla egg til þess að þrífa salerni.

Ráðstefnan er liður í að auka enn frekar á samvinnu og samkennd þjálfara sem sinna íþróttastarfi í Sveitarfélaginu Árborg. Á þátttakendum var að heyra að það hefði tekist og ráðstefnan hefði opnað augu margra fyrir því sem aðrir þjálfarar eru að fást við.

Stefnt er að því að ráðstefnan verði árviss viðburður í sveitarfélaginu og hana sæki þjálfarar víðsvegar af Suðurlandi.