Glæsilegt Unglingalandsmót á Sauðárkróki

Glæsilegt Unglingalandsmót á Sauðárkróki

17. Unglingalandsmót UMFÍ var haldið með glæsibrag á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina og er þetta í þriðja sinn sem Sauðkrækingar halda mótið. Rúmlega 1500 keppendur á aldrinum 11-18 ára tóku þátt í mótinu en nærri 10 þúsund gestir sóttu mótið um helgina. Flestir keppendur á mótinu voru frá Ungmennasambandi Skagafjarðar alls 218 talsins. Frá Ungmennasambandi Kjalarnesþings voru 161 keppandi og 108 komu frá Héraðssambandinu Skarphéðni Stór hluti keppenda Skarphéðinsmanna kom frá Umf. Selfossi.

Keppt var í 17 keppnisgreinum á mótinu og hafa þær aldrei verið fleiri fram að þessu. Þátttakendur í knattspyrnu voru 865 en það er sú íþróttagrein sem hefur alltaf dregið að sér flesta keppendur á unglingalandsmótinu. Næstflestir keppendur voru í frjálsum íþróttum eða 594 og þá voru 427 í körfubolta.

Öllum gert kleift að taka þátt

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, sagði í setningaræðu sinni að markmið og uppeldisleg gildi unglingalandsmótanna hafi náð að gera öllum börnum og unglingum á aldrinum 11-18 ára kleift að taka þátt þar sem þátttakan er ekki síður mikilvæg heldur en árangurinn. Í ræðu hennar sagði hún orðrétt.

,,Við vitum að árangur í íþróttum er ekki eingöngu mældur í afrekum heldur einnig í því að með þátttökunni felst samvera, heilsuefling, forvörn og skemmtilegur félagsskapur. Hin mikla þátttaka sem hefur verið í mótunum er mælikvarði um að vel hafi tekist til. Við getum því fagnað og verið stolt af því að hafa þróað þetta verkefni saman, ungmennafélagshreyfingin, keppendur, foreldrar, stjórn og styrktaraðilar.“

HSK hlaut fyrirmyndarbikarinn

Á mótsslitum var tilkynnt hverjir hefðu hreppt Fyrirmyndarbikarinn. Bikarinn að þessu sinni féll í skaut Héraðssambandsins Skarphéðins, HSK. Fyrirmyndarbikarinn var gefinn af Íþróttanefnd ríkisins og er viðurkenning þess sambandsaðila UMFÍ sem sýnt hefur eftirfarandi atriði. Góða umgengni á keppnisstöðum, tjaldsvæði og á almennum svæðum mótsdagana. Háttvísi og prúða framgöngu, m.a. í keppni og við inngöngu á setningu mótsins.

Alla mótsdagana var nefnd að störfum sem fylgist með keppendum og öðrum gestum sambandsaðila UMFÍ og mat frammistöðu þeirra út frá ofangreindum þáttum. Formaður UMFÍ, formaður unglingalandsmótsnefndar og formaður þess sambandsaðila UMFÍ sem heldur mótið hverju sinni ákveða valið á fyrirmyndarliði Unglingalandsmótsins.

Unglingalandsmótinu lauk með veglegri flugeldasýningu laust fyrir miðnætti á sunnudagskvöldið.

Næsta unglingalandsmót fer fram á Akureyri um verslunarmannahelgina 2015.