Góðir fulltrúar Sunnlendinga í Ríó

Góðir fulltrúar Sunnlendinga í Ríó

Sunnlendingar eiga góða fulltrúa á Ólympíuleikunum sem staðið hafa yfir undanfarna daga og lýkur í Ríó de Janeiro í Brasilíu annað kvöld.

Á vef Sunnlenska.is er greint frá því að Selfyssingar eigi þrjá fulltrúa í Ríó. Það eru þeir Magnús Tryggvason, flokkstjóri íslenska sundliðssins, Vésteinn Hafsteinsson, sem þjálfar sænska kringlukastarann Daniel Ståhl og Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta.

Pétur Guðmundsson, frá Tungu í Gaulverjabæjarhreppi, er þjálfari Guðna Vals Guðnasonar kringlukastara og flokkstjóri frjálsíþróttahópsins og þá er Örvar Ólafsson frá Stóru-Hildisey, aðstoðarfararstjóri, íslenska hópsins en hann starfar sem verkefnastjóri hjá Íþrótta- og Ólympíusambandinu.

Íslenskir þátttakendur á Ólympíuleikunum hafa allir lokið keppni en Þórir Hergeirsson stýrir sínu liði í leik um bronsið gegn Hollendingum síðdegis í dag.

Það urðu fagnaðarfundir þegar Magnús Tryggvason og Vésteinn Hafsteinsson hittust í Ríó á dögunum. Ljósmynd/Magnús Tryggvason