Góður sigur á Fylki

Góður sigur á Fylki

Stelpurnar unnu sinn annan leik í N1 deildinni á þriðjudaginn þegar þær mættu liði Fylkis á útivelli.
Leikurinn endaði 21-27 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 9-12 fyrir okkar stelpur.

Bæði lið virkuðu frekar óstyrk í byrjun enda hvorugt liðið í þeirri stöðu að vera minni aðilinn í leiknum og því pressa á báðum liðum að vinna. Leikurinn var í jafnvægi meirihluta fyrri hálfleiks en í lok hans náðu okkar stelpur að slíta sig aðeins frá og leiddu því með 3 mörkum í hléinu. Bæði þessi lið eru að byggja upp framtíðarlið með mikið af uppöldum leikmönnum. Þá er þjálfari Fylkis okkur Selfyssingum að góðu kunnur enda spilaði hann hér í 3 ár með mfl. og unglingaflokki félagsins með góðum árangri.

Síðari hálfleikur byrjaði mjög vel og munurinn jókst jafnt og þétt þar til að hann var orðinn 6 mörk og 20 mín. eftir. Á þessum kafla gekk allt upp og það leit út fyrir að Selfoss myndi vinna stórt.  Þá kom slæmi kaflinn sem virðist alltaf koma um miðbik síðari hálfleiks og er þetta eitthvað sem stelpurnar þurfa að laga því að þetta hefur gerst í öllum leikjunum á tímabilinu. Sóknirnar styttust, þær hættu að hlaupa til baka og vörnin náði ekki saman. Fylkisliðið gekk á lagið og náðu að minnka muninn í 4 mörk og virkuðu líklegar til þess að loka gatinu alveg. Eftir leikhlé sem Sebastian tók lagaðist leikur liðsins aðeins en það var fyrst og fremst stórleikur Áslaugar í markinu sem gaf liðinu það traust sem það þurfti til að hrökkva almennilega í gang aftur. Munurinn jókst aftur í 6 mörk og hélst þannig til leiksloka.

Liðið spilaði heilt yfir frekar vel og flestir leikmenn skiluðu sínu vel. Þetta var jafnframt fyrsti leikurinn í vetur þar sem Selfossliðið var fullskipað og engan lykilmann vantaði. Vörnin var mjög öflug langstærstan hluta leiksins en sóknarleikurinn datt inn og út. Eitthvað voru leikmenn þó enn með eftirköst eftir leikinn við ÍBV því að stelpurnar okkar skutu alls 11 sinnum í stöng eða slá. Greinilegt að Florentina var enn að hrella þær nokkrum dögum síðar. Þó verður að minnast sérstaklega á Áslaugu Ýr sem ákvað það þegar hún sá Ásdísi byrja að hita upp að hún ætlaði ekki útaf og lokaði markinu síðustu 15 mínútur leiksins, en hún varði 10 af 18 skotum sínum í leiknum á þeim kafla.

Næsti leikur er svo sannarlega mikil skemmtun fyrir liðið og alla Selfyssinga. Valur er að koma til okkar á laugardaginn og það er mikil eftirvænting hjá fólki að fá að sjá stóran hluta A-landsliðs Íslands koma og spila á Selfossi. Í Valsliðinu eru hetjur og fyrirmyndir í íslenskum kvennahandbolta og líklega nokkrar af bestu leikmönnum sem Ísland hefur átt í íþróttinni enn sem komið er. Við hvetjum ykkur öll til þess að koma og nýta tækifærið til þess að sjá okkar ungu stelpur kjálst við langbesta lið landsins.