Guðmundur Kr. nýr formaður Ungmennafélags Selfoss

Guðmundur Kr. nýr formaður Ungmennafélags Selfoss

Aðalfundur Umf. Selfoss var haldinn í Tíbrá í gær. Alls voru mættir 47 af 51 fulltrúa sem áttu rétt til setu á fundinum.

Í upphafi fundar skrifuðu fulltrúar Umf. Selfoss og Sveitarfélagsins Árborgar undir nýjan samstarfssamning vegna rekstur Selfossvallar.

Formaður og framkvæmdastjóri fóru yfir skýrslu stjórnar og ársreikninga en meðal annars hefur stjórn félagsins unnið að sameiginlegri stefnu varðandi frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja á Selfossi. Velta félagsins i heild sinni er gríðarmikil en á seinasta ári var rekstur aðalstjórnar réttu megin við núllið sem er afar mikilvægt. Í umræðum vakti Helgi Haraldsson formaður frjálsíþróttadeildar athygli á að félagið rukkar æfingagjöld upp á 71 milljón kr. en að launakostnaður væri 140 milljónir kr. Hlutfall æfingagjalda af launakostnaði er mismunandi eða allt frá 49% upp í 70% Á þessu sést að gríðarleg vinna lendir á stjórnarmönnum og sjálfboðaliðum að brúa bilið.

Gestir fundarins, Ásta Stefánsdóttir, Kjartan Björnsson og Hafsteinn Þorvaldsson, lofuðu gott starf félagsins og ítrekaði Kjartan von sína að Ungmennafélagið tæki við keflinu varðandi Selfossþorrablótið.

Nokkur fjöldi tillagna lá fyrir fundinum þar sem m.a. var fagnað glæsilegum árangri Sveitarfélagsins Árborgar í uppbyggingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu á undanförnum árum. Aðstaðan á Selfossi og samnýting íþrótta- og skólahúsnæðis er að mörgu leyti til fyrirmyndar og vekur aðdáun gesta sem sækja íþróttaviðburði á Selfossi. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að mikil þörf er á frekari uppbyggingu hjá öllum deildum. Því var skorað á sveitarfélagið að halda áfram markvissri uppbyggingu íþróttamannvirkja í góðu samstarfi við Umf. Selfoss. Ennfremur hvatti fundurinn Sveitarfélagið Árborg, í samvinnu við Umf. Selfoss, til að móta sér stefnu um fjárhagsstuðning við afreksstarf meistaraflokka félagsins.

Fjórir aðilar voru heiðraðir á fundinum. Guðni Andreasen bakari og dyggur stuðningsmaður Selfoss fékk afhentan Björns Blöndals bikarinn fyrir framúrskarandi störf í þágu félagsins. Hann hefur ásamt konu sinni brauðfætt iðkendur Umf. Selfoss frá því hann hóf rekstur í Guðnabakaríi. Handknattleiksdeildin fékk afhentan UMFÍ bikarinn sem deild ársins fyrir eflingu kvennahandboltans og öflugt starf yngri flokka. Þá var Guðmunda Brynja Óladóttir var valin íþróttakona Umf. Selfoss 2013 og Egill Blöndal var valinn íþróttakarl Umf. Selfoss 2013.

Að lokum fór fram stjórnarkjör. Kristín Bára Gunnarsdóttir lét af störfum sem formaður félagsins síðustu tvö ár og var henni þökkuð góð störf fyrir félagið. Í stað hennar var reynsluboltinn Guðmundur Kr. Jónsson kjörinn formaður. Aðrir stjórnarmeðlimir gáfu kost á sér til endurkjörs og voru kjörnir með lófaklappi. Þau eru Hallur Halldórsson gjaldkeri, Viktor S. Pálsson ritari og meðstjórnendur þau Hróðný Hanna Hauksdóttir og Sveinn Jónsson.

Skoðunarmenn reikninga voru kjörnir Brynja Hjálmstýsdóttir og Helga Baldursdóttir og til vara Snorri Sigurfinnsson og Ólafur Ragnarsson. Jólasveina- og þrettándanefnd var endurkjörin við sérstaka gleði fundargesta en í henni sitja Svanur, Þröstur og Guðmundur Ingvarssynir ásamt Þórarni Ingólfssyni.