Héraðsþingið haldið á Selfossi í níunda sinn

Héraðsþingið haldið á Selfossi í níunda sinn

94. héraðsþing HSK verður haldið í hátíðarsal Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi laugardaginn 12. mars og hefst kl. 9:30. Afhending þinggagna er frá kl. 9:00. Þing HSK hafa átta sinnum verið haldin á Selfossi, árin 1935, 1939, 1941, 1969, 1970, 1978, 1986 og 2005.

Rétt til setu á þinginu eiga 133 fulltrúar frá 60 aðildarfélögum HSK og tveimur sérráðum sambandsins. Þá hefur eitt félag sótt um aðild að sambandinu.

Á þinginu kemur út ríkulega myndskreytt 88 blaðsíðna ársskýrsla um starfsemi HSK á liðnu ári. Auk hefðbundinna þingstarfa verður val á íþróttamanni HSK 2015 kunngjört á héraðsþinginu. Fimm manna valnefnd sá um að velja íþróttamann líkt og undanfarin ár, en alls voru 20 íþróttamenn í jafn mörgum greinum tilnefndir. Hafa þeir allir verið boðaðir á verðlaunahátíð HSK sem haldin verður á þingstað kl. 14:40 á laugardag.

Stjórn HSK mun leggja fram 19 tillögur á þinginu og þá mun kjörnefnd leggja fram tillögu að nefndar- og stjórnarskipan HSK 2016. Tveir stjórnarmenn HSK gefa ekki kost á sér til endurkjörs, þau Örn Guðnason varaformaður og Helga Kolbeinsdóttir meðstjórnandi.

Nánari upplýsingar um þingið hafa verið sendar til félaga og ráða. Nánari upplýsingar um þingið, s.s. dagskrá, fulltrúafjölda félaga og tillögur sem lagðar verða fram má finna á heimasíðu HSK, undir liðnum viðburðir.