Íslandsmeistaratitill og deildarmeistaratitill á Selfoss í dag

Íslandsmeistaratitill og deildarmeistaratitill á Selfoss í dag

 

 

Annar dagur Vormóts Fimleikasambandsins fór fram í Vallaskóla í dag.  Í morgun var keppt í opnum flokki sem er flokkur 15 ára og eldri.  Lið Selfoss A sigraði flokkinn með glæsibrag en fast á hæla þeirra kom lið Hattar frá Egilsstöðum og Akureyri varð í þriðja sæti.  Lið Selfoss B stórbætti sig frá Unglingamóti FSÍ sem haldið var í febrúar en þær bættu stigin sín um 3,5 og enduðu í níunda sæti af tólf liðum.  Deildarmeistarar voru líka krýndir í þessum flokki í dag en lið Selfoss A var í toppbaráttu um titilinn fyrir þetta mót og með sigrinum náðu þær að halda toppsætinu og krækja í annan titil sama daginn. 

Eftir hádegið var svo keppt í 2.flokki kvenna en þar áttu Fimleikadeild Selfoss líka tvö lið.  Selfoss A hefur verið í harðri keppni við lið Stjörnunnar og Gerplu í vetur og var jafnt á með liðunum framan af.  Lið Gerplu A sigraði, Selfoss A varð í öðru sæti og lið Stjörnunnar í því þriðja.  Lið Selfoss B áttu líka stórkostlegt mót og enduðu í 5.sæti en alls kepptu 15 lið í flokknum. 

Dagurinn endaði með sundlaugapartý í Sundhöll Selfoss.  Á þriðja hundrað krakkar mættu og skemmtu sér en Fannar og Karitas sungu og spiluðu við mikinn fögnuð.

Frábær árangur hjá Selfossliðum í dag og spennandi dagur á morgun þegar keppt verður í 3.flokki en þar eiga heimamenn þrjú lið í keppninni en alls keppa átján lið í kvennaflokki á morgun. Keppnin verður því hörð og spennandi.  Fyrir mótið á morgun er lið Selfoss A í toppbaráttunni um deildarmeistaratitilinn og verður spennandi að sjá hvort Fimleikadeild Selfoss kræki í fjórða deildarmeistaratitilinn um helgina.  Fjörið hefst á morgun klukkan 10:25 en keppt verður í tveimur hlutum.  Seinni hlutinn hefst klukkan 14:25.