Jólagleði í Set höllinni

Jólagleði í Set höllinni

Selfyssingar unnu seiglusigur á frískum Frömmurum í Set höllinni á fimmtudagskvöld.  Þessum síðasta leik Selfyssinga í Olísdeildinni þetta árið endaði 28-27.

Framliðið mætti gríðarlega ákveðið til leiks og skoruðu þeir fyrstu fjögur mörkin, Selfyssingar voru að reyna erfiða hluti og smá tíma tók að finna taktinn varnarlega.  Á áttundu mínútu komust Selfyssingar svo á blað og vörnin fór að virka, heimamenn tóku þá 9-2 kafla og tóku stjórnina á leiknum í sínar hendur.  Það hélst út hálfleikinn þar sem Selfoss leiddi 15-11.

Vandræðagangur var á sóknarleik beggja liða í upphafi seinni hálfleiks.  Framarar byrjuðu að saxa á forskot heimamanna og á sama tíma fór fyrirliðinn Hergeir Grímsson af velli með þrjár brottvísanir.  Það tók Selfyssinga töluverðan tíma að finna jafnvægi á sínum leik eftir það og héldu gestirnir áfram og komust loks yfir þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum.  Selfyssingar bitu hins vegar í skjaldarrendur og náðu af seiglu að sigla heim eins marks sigri eftir spennandi lokamínútur.

Selfoss er áfram í 6. sæti deildarinnar, nú með 15 stig en Fram eru í baráttunni um úrslitakeppnissætið í 9. sæti með 10 stig.  Ljóst er að bæði lið munu sitja sem fastast í sætum sínum yfir hátíðarnar

Mörk Selfoss: Guðmundur Hólmar Helgason var markahæstur Selfyssinga með 9/2 mörk, Tryggvi Þórisson og Einar Sverrisson skoruðu 5, Ragnar Jóhannsson 4, Richard Sæþór Sigurðsson og Alexander Már Egan 2, Karolis Stropus og Hergeir Grímsson skoruðu hvor sitt markið.

Varin skot: Vilius Rasimas varði 11 skot í marki Selfoss og var með 32% markvörslu.  Sölvi Ólafsson kom inná í stutta stund og varði 1 skot og var með 20% markvörslu.

Selfyssingar fara inn í þetta langa jólafrí á góðu nótunum, en liðið er með fjóra sigra og eitt jafntefli í síðustu fimm leikjum.  Olísdeildin hefst svo aftur hjá Selfyssingum í Mosfellsbæ 6. febrúar.  Í millitíðinni höldum við jól og áramót hátíðleg og fylgjumst með EM í handbolta í janúar.  Næsti leikur sem Selfyssingar ætla að fjölmenna á er hins vegar jólaleikurinn á sunnudaginn þegar meistaraflokkur kvenna tekur á móti U-liði Vals.


Mynd: Tryggvi Þórisson var fremstur á meðal jafningja í vörninni og skoraði 5 mörk á hinum enda vallarins.
Umf. Selfoss / SÁ