Jón Daði og Fjóla Signý íþróttakarl og íþróttakona Árborgar

Jón Daði og Fjóla Signý íþróttakarl og íþróttakona Árborgar

Á uppskeruhátíð ÍTÁ sem fram fór í hátíðasal FSu í kvöld var tilkynnt að Jón Daði Böðvarsson, knattspyrnumaður frá Selfossi, og Fjóla Signý Hannesdóttir, frjálsíþróttakona frá Selfossi, hefðu verið valin íþróttakarl og íþróttakona Árborgar 2012. Á hátíðinni voru einnig veittar viðurkenningar og styrkir til íþróttafólks í sveitarfélaginu fyrir góðan árangur á liðnu ári. Ungmennafélag Stokkseyrar fékk hvatningarverðlaun ÍTÁ fyrir frábært starf.

Jón Daði Böðvarsson átti frábært tímabil með meistaraflokki Selfoss síðastliðið sumar og var valinn efnilegasti leikmaður Pepsi deildarinnar. Í framhaldi af því gerðist hann atvinnumaður hjá norska knattspyrnufélaginu Viking Stafanger í byrjun árs 2013. Jón Daði lék með u21 árs landsliðinu auk þess sem hann varð fyrsti leikmaður Selfoss til að leika A-landsleik.

Fjóla Signý Hannesdóttir náði frábærum árangri í frjálsíþróttum á árinu, vann fjölda verðlauna á mótum hérlendis og erlendis og setti mörg met. Hún varð þrefaldur Íslandsmeistari í kvennaflokki utanhúss og tvöfaldur Íslandsmeistari innanhúss. Fjóla Signý hefur verið valin í A-landsliðshóp Íslands fyrir árið 2013 og hefur sett stefnuna á næstu Ólympíuleika sem haldnir verða í Ríó í Brasilíu 2016.

Í vali á íþróttakarli Árborgar varð Hlynur Geir Hjartarson golfmaður úr GOS í öðru sæti og Daníel Jens Pétursson taekwondomaður úr Umf. Selfoss í þriðja sæti. Hjá konunum varð Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, fimleika- og handknattleikskona úr Umf. Selfoss í öðru sæti og Guðmunda Brynja Óladóttir knattspyrnukona úr Umf. Selfoss í þriðja sæti.

-ög