Landsmótið skilaði hagnaði

Landsmótið skilaði hagnaði

Í nóvember var lokið við að gera upp 27. Landsmót Ungmennafélags Íslands sem Héraðssambandið Skarphéðinn hélt með glæsibrag á Selfossi í sumar. Fjöldi sjálfboðaliða starfaði á Landsmótinu og kom fram í uppgjöri að skráð vinnuframlag sjálfboðaliða var 5.617 klukkustundir. Ljóst er að án sjálfboðaliða væri ekki hægt að framkvæmda glæsilegt Landsmót.

 

Það er fagnaðarefni að Framkvæmdanefnd Landsmóta stóð gríðarlega vel að fjárhagslegri afkomu mótsins. Þess vegna hefur hlutdeild í hagnaði Landsmóts UMFÍ á Selfossi, sem reiknuð var út samanber samþykkt héraðsþings HSK, verið greidd til félaga, deilda og ráða í samræmi við vinnuframlag sjálfboðaliða á vegum þeirra.

Vinnuframlag félagsmanna Umf. Selfoss var ríflega 40% á mótinu. Sú elja og dugnaður sem foreldrar, stjórnarmenn, þjálfarar og keppendur á vegum Selfoss skiluðu í tengslum við mótið skilaði félaginu tæplega 2 milljónum króna í starf Umf. Selfoss og munar um minna.

Frá fundi aðalstjórnar Ungmennafélags Selfoss í október voru sendar þakkir til HSK fyrir glæsilegt Landsmót í sumar. Lesa má ályktun aðalstjórnar hér fyrir neðan.

Efni: Þakkir fyrir glæsilegt Landsmót 2013

Aðalstjórn Ungmennafélagsins Selfoss vill koma á framfæri bestu þökkum til Héraðssambandsins Skarphéðins fyrir góða framkvæmd og glæsilega umgjörð 27. Landsmóts UMFÍ sem haldið var á Selfossi dagana 4.-7. júlí 2013.

Jafnframt þakkar stjórnin fyrir gott samstarf við undirbúning mótsins. Samvinna við skipulag og dagskrá mótsins sem að stórum hluta fór fram á svæði og húsnæði Ungmennafélagsins var í alla staði til fyrirmyndar.

Þá vill stjórnin koma á framfæri þakklæti til félagsmanna fyrir það mikla starf sem sjálfboðaliðar inntu af hendi við undirbúning mótsins og framkvæmd þess.

Selfossi, 1. október 2013
Aðalstjórn Ungmennafélags Selfoss