Norræna skólahlaupið sett í Sunnulækjarskóla

Norræna skólahlaupið sett í Sunnulækjarskóla

Norræna skólahlaupið var sett í í blíðskaparveðri í Sunnulækjarskóla á Selfossi síðastliðinn föstudag. Hlaupið var mjög vel skipulagt af skólans hálfu og tóku um 600 grunnskólanemendur þátt. Frá þessu er greint á vef ÍSÍ en þar má einnig finna myndir frá setningunni.

Birgir Edwald, skólastjóri Sunnulækjarskóla, tók á móti Líneyju Rut Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra ÍSÍ og starfsfólki ÍSÍ við skólann. Líney Rut sagði nokkur orð um Norræna skólahlaupið og ræsti síðan hlaupið. Krakkarnir voru greinilega spenntir fyrir viðburðinum og mikil stemmning ríkti við rásmarkið.

Blossi, lukkudýr Smáþjóðaleikanna, var á staðnum og vakti mikla kátínu. Auk þess að hvetja krakkana áfram í hlaupinu hljóp Blossi sjálfur dágóðan spöl. Fulltrúar frá Mjólkursamsölunni voru á svæðinu og gáfu krökkunum ískalda mjólk í lok hlaupsins.

Norræna skólahlaupið er árlegt verkefni sem grunnskólum á Norðurlöndunum býðst að taka þátt í. Hlaupið var fyrst haldið árið 1984. Í ár tengist hlaupið Íþróttaviku Evrópu, verkefni sem Evrópuráðið hefur nýlega hrundið af stað.

Markmiðið með Norræna skólahlaupinu er að hvetja nemendur til að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Árlega taka 10.000-12.000 grunnskólanemendur frá um 40 skólum á Íslandi þátt í hlaupinu og hlaupa til samans 30 hringi í kringum landið, en hægt er að velja um þrjár vegalengdir 2,5, 5 og 10 kílómetra.

Verkefnið nýtur stuðnings ÍSÍ, Mjólkursamsölunnar og Evrópuráðsins, og er í samvinnu við Íþróttakennarafélag Íslands.