Skráningar hafnar á Unglingalandsmótið

Skráningar hafnar á Unglingalandsmótið

Búið er að opna fyrir skráningar á 16. Unglingalandsmót UMFÍ sem fram fer á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina. Mótið hefst föstudaginn 2. ágúst og lýkur um miðnætti sunnudaginn 4. ágúst.  Þetta er í annað sinn sem mótið er haldið á Höfn en fyrra skiptið var árið 2007.

Unglingalandsmótin hafa verið afar vinsæl frá upphafi en keppendur á síðasta móti, sem haldið var á Selfossi, voru um 2000 talsins. Keppnisgreinar á mótinu verða fimleikar, frjálsíþróttir, glíma, golf, hestaíþróttir, knattspyrna, körfubolti, motocross, skák, stafsetning, sund, strandblak og upplestur.

Allir á aldrinum 11 – 18 ára geta keppt á mótinu en einnig eru í boði fjölbreytt verkefni og afþreying fyrir þá sem yngri eru.  Foreldrum og fullorðnum mun ekki leiðast á Höfn en auk þess að fylgjast með íþróttakeppninni geta þau tekið þá í mörgum viðburðum.

Skráning á Unglingalandsmót

Veruleg uppbygging íþróttamannvirkja var fyrir mótið 2007 og hún hefur haldið áfram síðan. Stórglæsileg sundlaug og stórt knattspyrnuhús hafa verið tekin í notkun og munu koma að góðum notum á mótinu.

Tjaldsvæðið sem verður vel útbúið verður í göngufæri við aðalkeppnissvæðið.