Stelpurnar töpuðu í hörku leik gegn HK

Stelpurnar töpuðu í hörku leik gegn HK

Stelpurnar spiluðu fyrsta útileik vetrarins gegn HK í Digranesi síðastliðinn laugardag. Liðið átti góðan dag og lét HK stelpurnar vinna virkilega fyrir stigunum. Okkar stelpur leiddu allan fyrri hálfleikinn með 1-2 mörkum og var staðan í hálfleik 12:13 fyrir Selfoss. Síðari hálfleikur þróaðist svipað og sá fyrri þar til u.þ.b. 15 mín, voru eftir af leiknum en þá misstu stelpurnar dampinn í 8 mín. þar sem allt gekk á afturfótunum bæði í vörn og sókn. Staðan breyttist úr því að vera einu marki yfir í að vera 4 mörkum undir á svipstundu. Sebastian tók þá leikhlé og náði að fá liðið aftur á beinu brautina og unnu okkar stelpur lokakafla leiksins með 2 mörkum og niðurstaðan varð 25:27 tap.  Liðið stjórnaði leiknum og leiddi hann í 50 mín., en slæmur kafli um miðbik hálfleiksins varð til þess að liðið náði ekki að koma á óvart og landa stigum. HK hafði bæði meiri leikreynslu og meiri breidd í leikmannahópnum sem varð til þess að þær kláruðu leikinn með sigri.  Varnarleikur og markvarsla var mjög góð í leiknum og þá voru sýnilegar framfarir á sóknarleiknum. Liðið spilaði allt vel og gáfu stelpurnar bókstaflega allt í leikinn og geta Selfyssingar því verið stoltir af liðinu. Þuríður var markahæst með 8 mörk, Carmen skoraði 6, Kristrún 4, Tinna 3, Kara 3 og Hildur 1. Áslaug varði 17/1 skot í leiknum. 

Næsti leikur er heimaleikur gegn stórliði ÍBV næsta laugardag og hvetjum við alla til þess að gefa sér tíma til þess að koma og styðja stelpurnar til dáða.