Tap gegn Stjörnunni

Tap gegn Stjörnunni

Stelpurnar spiluðu á laugardaginn við enn eitt stórliðið í N1 deildinni sem inniheldur eina 4 leikmenn íslenska landsliðsins og aðra 2 fyrrvernandi leikmenn þess. Stjörnuliðið er eitt af fjórum bestu liðum landsins ásamt Val, Fram og ÍBV og því var verkefnið stórt fyrir nýliðana okkar. 

Bæði lið byrjuðu leikinn rólega og svo fór að gestirnir voru fyrri til að taka við sér þegar þeir breyttu stöðunni úr 5-6 í 6-10 á aðeins 5 mín. kafla um miðbik fyrri hálfleiks. Stelpurnar okkar fylgdu eftir með sínum eigin kipp og héldu jöfnu fram að hléinu.  Staðan í hálfleik 10-14. Síðari hálfleikurinn byrjaði hins vegar mjög illa og strax á fyrstu 5 mín. síðari hálfleiks jók Stjarnan muninn í 10-17.  Í stað þess að gefast upp þá tóku stelpurnar sig taki og héldu jöfnu það sem eftir var leiks. Mest náðu þær að minnka muninn í 5 mörk þegar um 5 mín. voru eftir, 23-28, en Stjarnan var ekki á því að hleypa þeim nær að þessu sinni. Lokatölur leiksins voru því 25-32. Stelpurnar eiga hrós skilið fyrir að halda ótrauðar áfram allan leikinn sama hvernig hann þróaðist og að þessu sinni náðu þær að halda í við gestina í 50 af 60 mín. leiksins. Munurinn á liðunum myndaðist á tveimur 5 mín. köflum í hvorum hálfleik.   

Sóknarleikurinn var góður og sýnilegar framfarir þar. Varnarleikurinn og markvarslan með ágætum en þó komu nokkrir kaflar þar sem leikreynt lið gestanna var bara mun klókara en okkar stelpur. Þrátt fyrir hetjulegar tilraunir liðsins til að hlaupa til baka þá náði Hanna Guðrún Stefánsdóttir engu að síður að skora fjölmörg mörk úr hraðaupphlaupum. Þá voru bæði Rakel Dögg og Jóna Margrét vörn og markmönnum Selfoss liðsins erfiðar með gríðarlega góðum skotum. Heilt yfir fínn leikur hjá stelpunum og til marks um það hversu vel hefur gengið að spila vörnina í vetur má geta þess að Stjarnan var fyrsta liðið til þess að ná að skora 30 mörk eða meira á stelpurnar okkar.   

Næsti leikur er gegn hinu ofurliði deildarinnar en það er útileikur gegn Fram á föstudaginn kemur og jafnframt síðasti leikur liðsins fyrir EM pásuna í deildinni. Því miður er leikurinn á sama tíma og stórleikur strákana í Vallaskóla gegn ÍBV.