UMFÍ | Ungt fólk og lýðræði 2017

UMFÍ | Ungt fólk og lýðræði 2017

Ungmennaráðstefna UMFÍ, Ungt fólk og lýðræði, var haldin á Laugarbakka í Miðfirði dagana 5.-7. apríl 2017. Greinilegt var á umræðu ungs fólks á ráðstefnunni að mikill munur er á störfum ungmennaráða almennt. Þá kom fram að fleira ungt fólk fær nú en áður tækifæri til að móta samfélagið og koma að ákvarðanatöku á öllum stigum þess. Því ber að fagna. Þetta er mikil breyting frá því ráðstefnan var fyrst haldin árið 2009.

Ungt fólk veit hvað það vill

Ekki var samráð haft við ungt fólk þegar ákveðið var að gera stórvægilegar breytingar á menntakerfinu, stytta nám til stúdentsprófs um eitt ár og taka í notkun nýtt einkunnakerfi á samræmdum prófum í grunnskólum landsins. Ungt fólk verður fyrir miklum áhrifum af breytingunum. Stytting á námi til stúdentsprófs getur orðið til þess að minni tími gefst til íþrótta- og tómstundaiðkunar. Breytingarnar hafa líka neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu ungmenna.

Ungu fólki finnst það hafa verið skilið út undan og ekki hlustað á það. Því finnst þörf á viðhorfsbreytingu innan stjórnsýslunnar svo ráðamenn og sveitarstjórnarfólk hlusti betur á ungt fólk á Íslandi, bæði þarfir og kröfur. Ungmennin óska líka eftir því að fulltrúar ungmennaráða fái að sitja fundi flestra nefnda innan sveitarfélaga.

Þetta er á meðal þess sem fram kom á ungmennaráðstefnunni en yfirskrift hennar var Ekki bara framtíðin – ungt fólk, leiðtogar nútímans.

Vilja lækka kosningaaldur

„Við teljum að æskilegt sé að breyta lögum og í leiðinni samræma reglur ungmennaráða um land allt,” segir í ályktun ungmennaráðsins, sem jafnframt vill að kosningaaldur verði lækkaður úr 18 árum í 16 ár. Lagt er til að breytingarnar verði í þrepum og kosningaaldur lækkaður fyrst í sveitarstjórnarkosningum en síðar í kosningum til Alþingis.

„Það er þyngra og leiðinlegra að breyta lögum um kosningaaldur, en það er stórt skref að byrja á sveitarstjórnarkosningum,“ segir Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG, sem mætti á ráðstefnuna. Öllum stjórnmálaflokkum var boðið að senda fulltrúa á ráðstefnuna.

Málefni ungmennaráða fær meira vægi

Til ráðstefnunnar Ungt fólk og lýðræði komu tæplega 100 ungmenni víða að frá landinu frá ungmennaráðum félagasamtaka og sveitarfélaga. Þar ræddu fulltrúar ungmennaráðanna saman og veittu hverju öðru ráð um það hvernig þau geta komið málum sínum á framfæri. Í niðurstöðum könnunar á vegum Ungmennaráðs UMFÍ í lok ráðstefnunnar kom fram að öll ungmennin sem komu töldu sig hafa lært eitthvað nýtt á henni.

Fram kom í umræðum ráðstefnugesta að málefni ungmennaráða hafi fengið meira vægi á undanförnum árum og dæmi um að sveitarfélög fái ungt fólk með sér í skipulagsráð og nefndir á vegum sveitarfélagsins. Það hafi verið óhugsandi fyrir tíu árum.

100 ungmenni leggja á ráðin

Pallborðsumræður voru á ráðstefnunni á föstudag. Í pallborði voru sex: Þrír fulltrúar frá VG; þingmaðurinn Andrés Ingi Jónsson, varaþingmaðurinn Gísli Garðarsson og Bjarni Jónsson, oddviti VG í sveitarstjórn Skagafjarðar; Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna; Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra; og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

Ungmennaráð UMFÍ stóð fyrir ráðstefnunni og kom ungt fólk, flest á aldrinum 16-26 ára, að allri skipulagningu hennar, allt frá fundum til kvöldskemmtana. Ráðstefnugestir voru til fyrirmyndar. Skemmtanir voru áfengislausar, tóbak var ekki notað, hvorki reyk né munntóbak og notaði enginn rafrettur.

Á ráðstefnuna mættu fulltrúar ungmennaráða frá Akranesi, Borgarnes, Hólmavík, Hvammstanga, Búðardal, Fjallabyggð, Akureyri, Norðurþingi, Fljótsdalshéraði, Fjarðabyggð, Höfn í Hornafirði, Vík í Mýrdal, Árborg, Flóahreppi, Reykjavík, Hafnarfirði, Garðabæ, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ, Reykjanesbæ og Garði ásamt fulltrúum ungmennaráða félagasamtaka.

Fyrir hönd ráðstefnugesta,
Ungmennaráð UMFÍ

Nánari upplýsingar veitir Eygló Hrund Guðmundsdóttir, ungmennaráði UMFÍ og framkvæmdastjóri USVH, í síma 844-0939.