Ungmennafélag Selfoss ber aldurinn vel og hefur aldrei verið öflugra

Ungmennafélag Selfoss ber aldurinn vel og hefur aldrei verið öflugra

Ungmennafélag Selfoss er eitt af elstu starfandi félögum á Selfossi sem hefur með framgöngu sinni og dugnaði haft mikil og góð áhrif á íþrótta-, félags- og menningarlegt starf í samfélaginu. Það eru ótaldir einstaklingar og fjölskyldur sem hafa með einum eða öðrum hætti tekið þátt í starfi og leik ungmennafélagsins í áttatíu ár sögu þess.

Að byggja upp gott starf og ná góðum árangri gerist ekki af sjálfum sér, til þess þurfa ótal margir að koma að og leggja starfinu lið. Það hefur verið áhugavert að sjá hvað félagið býr yfir öflugum og fórnfúsum einstaklingum sem stjórnað hafa félaginu og hinum ýmsu íþróttadeildum þess í gegnum árin. Velgegni allra íþróttagreina innan ungmennafélagsins ber vott um það.

Þann 1. júní 1936 hófst saga þessa félags, komu þá saman tíu stofnfélagar í Tryggvaskála og stofnuðu Ungmennafélag Selfoss. Að vísu hét félagið í fyrstu Ungmennafélagið Tíbrá en fljótlega breytt í Ungmennafélag Selfoss. Megintilgangurinn með stofnun félagsins var að auka íþrótta-, félags- og menningarleg tengsl íbúanna við Ölfusá, en svo nefndist byggðin hér áður en Selfosshreppur var formlega stofnaður(1. janúar 1947). Þá bjuggu um tvöhundruð íbúar í þéttbýliskjarnanum við Ölfusárbrú.

Fyrsta stjórn félagsins var skipuð þeim Vernharði Jónssyni, sem var formaður, Guðmundi Jóhannssyni og Birni Blöndal Guðmundssyni. Varastjórarmenn voru Bjarni Sigurgeirsson, Grímur Thorarensen og Ágúst Helgason. Verkefni fyrsta fundar var að koma á skipulögðum íþróttaæfingum og ræða stórverkefni eins og hitaveitumál, svo hægt yrði að byggja sundlaug og fara í íþróttavallargerð. Sú aðstaða sem þá var í boði var ekki stórbrotin, Tryggvaskáli var nýttur sem íþróttasalur og utandyra voru öll tún sem í boði voru nýtt sem æfinga- og keppnissvæði. Bankaflatir (við Fagurgerði) og gróðrastöðvartúnið (við Smáratún) voru helstu staðirnir og síðar túnið við gamla verkstæði K.Á. (þar sem Krónan stendur í dag).

Það vakti strax athygli á þessum árum hvað komu frambærilegir frjálsíþróttamenn frá Selfossi. Á þessum tíma fóru hlutirnir að gerast í uppbyggingu mannvirkja og hafði ungmennafélagið töluverð áhrif þar á. Árið 1945 kom fyrsti íþróttasalurinn til sögunar við Barnaskólann við Tryggvagötu. Þótti sú aðstaða vera algjör bylting til íþróttaæfinga og keppni. Árið 1951 er malarvöllurinn við Engjaveg tekin í gagnið, en ungmennafélagar unnu við þann völl í sjálfboðavinnu. Með tilkomu vallarins opnaðist alveg ný aðstaða til knattspyrnu og frjálsíþróttakeppni.

Árið 1960 er Sundhöll Selfoss opnuð og sunddeild stofnuð, hófst þá mikill uppgangur í sundíþróttinni á Selfossi undir öruggri stjórn Harðar S. Óskarssonar. Árangurinn í starfi Harðar skilaði sér strax, félagið eignaðist marga landsliðsmenn í sundi og höfðu á að skipa einu sterkasta sundliði landsins. Árið 1965 var nýr grasvöllur tekin í gagnið við Engjaveg sem markaði nýja vakningu drengja og síðar stúlkna í knattspyrnu á öllum aldri.

Árið 1978 er íþróttahúsið við Sólvallaskóla tekið í gagnið á Landmóti UMFÍ sem haldið var á Selfossi. Þá fögnuðu íþróttamenn glæsilegri inni aðstöðu sem opnaði fyrir löglega keppnisvelli í handbolta, körfubolta, badminton o.fl. Jafnframt var tekin í gagnið 25 m útisundlaug við Sundhöllina. Ungmennafélagið margfaldaði iðkendafjöldan í íþróttum og deildir voru stofnaðar innan félagsins.

Árið 1986 fór fram stækkun á íþróttavallarstæðinu með gerð æfingavallar. Árið 1997 var ný og glæsileg félags- og búningsaðstaða tekin í gagnið á íþróttarvallarsvæðinu sem ungmennafélagið og bæjaryfirvöld byggðu sameinlega.

Árið 2004-2008 var gervigrasvöllurinn tekin í gagnið, íþróttahúsið Iða við Fjölbrautarskóla Suðurlands og íþróttahúsið Baula við Sunnulækjarskóla. Árið 2010 var nýr grasvöllur, áhorfendastúka auk búningsklefa tekin í gagnið og nýr frjálsíþróttavöllur árið 2013. Árið 2015 var öll aðstaða við Sundhöll Selfoss stór bætt.

Í dag er Ungmennafélag Selfoss að móta framtíðarstefnu til næstu tíu ára í uppbyggingu íþróttamannvirkja og gera tillögu um forgangsröðun. Hér hugsa menn til framtíðar og vilja sjá enn betri aðstöðu fyrir komandi kynslóðir.

Ungmennafélag Selfoss er eitt öflugasta íþróttafélag landsins með átta starfandi íþróttadeildir innan sinna vébanda, iðkendafjöldinn er tæplega tvöþúsund og sem dæmi um umfang félagsins er ársveltan tæpar þrjúhundruð milljónir. Félagið á í sínum röðum á annað hundrað landsliðsmenn í hinum ýmsu greinum, ólympíufara og atvinnumenn í íþróttum út í heimi.

Starfandi eru framkvæmdastjórar hjá fjölmennustu deildunum, en Gissur Jónsson er framkvæmdastjóri ungmennafélagsins og núverandi formaður er Guðmundur Kr. Jónsson, er hann 28. einstaklingurinn sem gegnir því starfi. Á síðasta aðalfundi var lögð fram mjög vönduð útgáfa af Braga ársriti félagsins. Það styrkur fyrir samfélagið að hafa Ungmennafélag Selfoss í því hlutverki sem það gegnir, það bætir ímyndina og styrkir mannlífið öllum til heilla.

Á þessum tímamótum ber að þakka öllum sem byggt hafa upp og lagt félaginu lið á umliðnum árum. Þá ber að þakka bæjaryfirvöldum á hverjum tíma fyrir góðan skilning á þörfum félagsins og uppbyggingu mannvirkja. Með von um áframhaldandi framfarir og bættan árangur eru öllum ungmennafélögum sendar bestu óskir og afmæliskveðjur.

Laugardaginn 28. maí verður haldið upp á afmælið í íþróttahúsinu við Vallaskóla og eru allir velkomnir.

Björn Ingi Gíslason
Höfundur er fyrrverandi formaður Umf. Selfoss