Úthlutun Ferðasjóðs íþróttafélaga

Úthlutun Ferðasjóðs íþróttafélaga

Búið er að úthluta styrkjum úr Ferðasjóði íþróttafélaga vegna keppnisferða ársins 2013. Til úthlutunar að þessu sinni voru 67 m.kr. Umsóknir bárust frá 117 íþrótta- og ungmennafélögum úr 24 héraðssamböndum/íþróttabandalögum ÍSÍ en fjöldi umsókna var 245. Greiddir voru styrkir vegna 3.138 keppnisferða í öllum aldursflokkum á fyrirfram skilgreind styrkhæf mót sérsambanda ÍSÍ í 24 íþróttagreinum. Heildarkostnaður umsókna nam tæplega 430 m.kr.

Úthlutunarfé sjóðsins kemur frá ríkinu en ÍSÍ hefur haft umsjón með úthlutunum sjóðsins allt frá fyrstu úthlutun árið 2007. Tilvist sjóðsins  er gríðarlega mikilvæg fyrir íþróttahreyfinguna enda ferðakostnaður stór og sligandi þáttur í rekstri íþróttafélaga. Ferðir sem töldu 150 km eða meira aðra leið töldust styrkhæfar í þessari úthlutun.

Innan HSK fengu 11 aðildarfélög styrk úr sjóðnum að upphæð 2.573.122 kr. þar af fengu deildir innan Umf. Selfoss 1.598.042 kr. Styrkirnir eru greiddir út beint til þeirra félaga/deilda sem sækja um hverju sinni.