Unglingalandsmót UMFÍ

Unglingalandsmót UMFÍ verður nú haldið á Sauðárkróki í þriðja sinn. Áður hafa Unglingalandsmót verið haldin þar 2004 og 2009. Það má því segja að mótshaldarinn sem er Ungmennasamband Skagafjarðar viti nokkuð hvað er framundan. Mótið verður um verslunarmannahelgina en gert er ráð fyrir að tvær keppnisgreinar hefjist á fimmtudeginum 31. júlí en það eru dans og golf.

Búist er við fjölmennu móti á Sauðárkróki enda er aðstaðan einstaklega góð. Keppnissvæðin eru flest staðsett í hjarta bæjarins og önnur í göngufæri. Tjaldsvæðið er einnig sérstaklega vel staðsett og örstutt frá aðalkeppnissvæðunum. Á svæði norðan við Sundlaug Sauðárkróks í miðjum bænum, verður sérstakt afþreyingarsvæði þar sem sett verða upp ýmis tjöld, leiktæki og annað til að gera mótið fjölbreyttara.

Mótssetningin verður á föstudagskvöldið 1. ágúst en mótsslit um miðnætti sunnudagsins 3. ágúst. Keppnisgreinar á mótinu eru Bogfimi, Dans, Frjálsíþróttir, Glíma, Golf, Hestaíþróttir, Knattspyrna, Körfubolti, Motocross, Siglingar, Skák, Stafsetning, Strandblak, Sund, Tölvuleikur, Upplestur, Íþróttir fatlaðra (boðið verður upp á keppni í frjálsíþróttum og sundi).

Allar upplýsingar á heimasíðu UMFÍ.