Fimleikafólk frá Umf. Selfoss á Evrópumóti

EM
EM

Dagana 17.-20. október síðastliðinn fór Evrópumótið í hópfimleikum fram. Mótið var haldið í Portúgal og sendi Ísland 4 landslið til leiks.

Liðin náðu öll frábærum árangri og komust öll upp úr undanúrslitunum, sem voru haldin á miðvikudeginum og fimmtudeginum. Á föstudeginum og laugardeginum voru úrslitin, þar sem 6 lið kepptu um Evrópumeistaratitil. Kvennalið Íslands varð í 2. sæti, blandað til fullorðinna landaði 3. sæti, stúlknaliðið tók 2. sæti og blandað til unglinga náði 4. sæti. Virkilega góð frammistaða.

Fimleikafólk sem á rætur að rekja til fimleikadeildar Selfoss lagði sitt af mörkum á þessu móti, en Birta Sif Sævarsdóttir sem æfir með 1. flokki hér á Selfossi keppti með blönduðu liði unglinga og átti þar gott mót. Tanja Birgisdóttir, sem þjálfar Birtu Sif, var landsliðsþjálfari í þessu verkefni og þjálfaði blandað lið fullorðinna. Í blönduðu liði fullorðinna voru 2 keppendur sem æfðu lengi vel á Selfossi, þeir Eysteinn Máni Oddsson og Anna María Steingrímsdóttir, en þau eru nú bæði að æfa með félagsliðum á Höfuðborgarsvæðinu. Einnig keppti Margrét Lúðvígsdóttir með kvennaliðinu, en hún æfði lengst af með fimleikadeild Selfoss og er í dag þjálfari hjá deildinni. Hekla Björt Birkisdóttir úr Hveragerði keppti með stúlknalandsliðinu á mótinu, en hún æfði einnig á Selfossi um tíma.

Þá var Bergþóra Kristín Ingvarsdóttir, núverandi framkvæmdastjóri fimleikadeildarinnar einnig á mótinu að sinna störfum fyrir Fimleikasamband Íslands og Olga Bjarnadóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fimleikadeildarinnar að sinna störfum dómara.

Við óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn!

Á myndinni, frá vinstri: Birta Sif, Anna María, Eysteinn Máni, Tanja og Margrét