Hvað er júdó?

Dr. Jigiro Kano, var Japani, sem stofnaði Kodokan skólann 1882 og hóf þar kennslu í Judo í fyrsta sinn. Kano var frumkvöðull í íþróttum og kennslufræðum. Um allan heim er tíðkað að hneigja sig í átt að heiðurssæti, þar sem mynd af Kano er hengd upp í júdósalnum, í upphafi og lok hverrar æfingar til að sýna þessum mikla meistaranum tilunna virðingu.

 

Hvað er Júdó?

Júdó er skemmtileg og kröftug bardagaíþrótt, sem krefst bæði líkamlegs atgervis og mikillar andlegrar ögunar. Íþróttin felst í því að fella og yfirbuga andstæðing sinn. Í uppréttri stöðu býður júdó upp á fjölbreytilegar aðferðir til fella eða lyfta og henda andstæðingnum á bakið. Í liggjandi stöðu býður íþróttin leiðir, með fjölmörgum fastatökum og lásum, til að halda andstæðingnum niðri, þar til hann gefst upp. Júdó, sem á rætur sínar að rekja til Japans, þróaðist úr ýmsum bardagalistum sem samuraijar og lénsherrar höfðu notað í hundruð ára. Þótt stór hluti júdótækninnar sé komin úr bardagalistum, sem voru hannaðar til að meiða, limlesta eða drepa andstæðinginn í raunverulegum bardögum, hefur bardagatækninni verið breytt þannig að iðkendur geta æft og reynt þessa íþrótt á öruggan hátt án þess að meiða hvern annan. Ólíkt karate byggir tæknin í júdó ekki á spörkum eða höggum af neinu tagi. Ólíkt kendo eru ekki notuð nein áhöld eða vopn í júdó. Í júdó eru einfaldlega tveir andstæðingar, sem með tökum sínum á júdóbúningum hvors annars, nota styrk jafnvægis, afls og hreyfingar til að reyna að yfirbuga hvorn annan. Flóknara er það ekki. Í einfaldleikanum liggur engu að síður margslungin íþrótt sem kostar mikla áreynslu, tíma og úthald ásamt strangri líkamlegri og andlegri þjálfun.

Orðið júdó er myndað af tveimur japönskum táknum sem þýða “mildur” og “leið”. Í bókstaflegri merkingu þýðir júdó því “milda leiðin”. Þrátt fyrir að “milda leiðin” sé ekki auðsjáanleg fyrir byrjendur, sem horfir á fólk hent upp í loftið eða skellt í gólfið, er hér um að ræða mildari útfærslu af harðari bardagaíþróttum.Júdó er í raun miklu meira en bara ástundun og nám í bardagatækni. Í heild sinni er júdó yndislegt kerfi, sem byggir upp hvern og einn á líkamlegan, andlegan og siðferðislegan hátt. Júdó hefur sína eigin menningu, stjórnkerfi, arfleið, siði og hefðir. Ennfremur smitast gildi “mildu leiðarinnar” frá keppnisþjálfuninni inn í líf flestra iðkenda og hafa áhrif á fjölskyldu viðkomandi, vini, vinnufélaga og jafnvel ókunnuga. Júdó gefur sönnum iðkendum sínum lykil að siðareglum, lífsstíl og sýn á tilveruna. Í dag skipta iðkendur júdó milljónum og er án efa vinsælasta bardagaíþrótt heimsins. Aðeins fótbolti hefur á heimsvísu fleiri iðkendur. Alþjóðlega Júdósambandið (IJF) hefur flest þjóðlönd innan sinna vébanda af alþjóðlegum íþróttasamböndum. Í sumum löndum er IJF hluti af menntakerfum þeirra, iðkað í íþróttafélögum, í barnaskólum, unglingaskólum, sérskólum, trúarlegum eða þjóðlegum æfingamiðstöðvum og á mörgum öðrum stöðum vítt og breitt um heiminn. Milljónir hafa uppgötvað þessa mikilfenglegu og mannauðgandi íþrótt. Júdó er öguð og krefjandi líkamleg þjálfun. Tækniæfingar hjálpa hverjum og einum til að byggja upp alhliða líkamlegan þrótt á fjölbreytilegan hátt; styrk, mýkt, liðleika, snerpu, afl, jafnvægi, sprengikraft og úthald. Sókna- og varnaræfingar þjálfa tímasetningar fyrir gagnárásir, samhæfingu hugs og handa og trú á eigin mátt. Iðkendur júdó verða hraustari, stæltari og sneggri í gegnum æfingar sínar. En iðkendurnir öðlast ekki eingöngu aukna hreysti heldur eignast þeir hlutdeild í einstakri færni og tækni júdóheimsins. En aðeins hlutdeild því júdóheimurinn er stór. Sem dæmi læra iðkendur aðferðir til að fleygja með afli, nákvæmni og snerpu andstæðingum í gólfið. Þótt iðkendum júdó sé oft kynntur fjöldi slíkra bragða ná flestir þeirra aðeins fullkomnu valdi á fáum þeirra og oftast er það nægilegt til að ná góðum árangri í keppni.

En fyrir utan líkamlegt atgervi og hreysti, sem iðkendur júdó ávinna sér, þá læra þeir miklu meira. Þeir læra hvernig þeir geta stjórnað tilfinningum sínum, skapi og hvötum. Þeir læra um mikilvægi þrautseigju, virðingar, hollustu og aga. Iðkendur júdó öðlast aukinn siðferðislegan þroska ásamt því að þjálfast í kurteisi og almennum mannasiðum. Þeir læra að yfirvinna hræðslu og sýna hugrekki undir álagi. Í gegnum keppni og daglegar æfingar læra þeir um réttmæti og sanngirni. Reynslan kennir þeim að kurteisi, hógværð og fleiri slík gildi borga sig og hjálpar þeim einnig í daglegu lífi. Iðkendur júdó öðlast einnig ákveðna félagslega færni og byggja upp gefandi samband, til lengri tíma litið, milli hvers annars. Tengsl og vinskapur milli iðkenda, sem hafa í gegnum súrt og sætt verið saman í æfingum og keppni í lengri tíma, er oft djúpur og endist stundum til lífstíðar. Í gegnum júdó getur fólk þróað vinskap og átt samskipti nánast því hvar sem er. Það skiptir ekki máli hvaða þorp eða bæjarfélag þú heimsækir, þú ert alltaf velkomin í hvaða júdóklúbb sem er. Júdó er því ekki eingöngu líkamleg athöfn, heldur alþjóðlegt tungumál sem er hafið yfir landamæri, menningarkima og tungumálaerfiðleika. Á sinn hátt tengir júdó saman fólk, samfélög og þjóðir. Íþróttin hefur því ekki aðeins mikilvægu hlutverki að gegna í lífi iðkandans heldur einnig í velferð í samfélagi þjóðanna .

Eyjólfur Sturlaugsson. Þýðing á greininni „What is Judo?“ á heimasíðu alþjóða júdósambandsins (IJF).
Slóð: www.ijf.org/corner/corner_introduction.php