Um deildina

Taekwondo er kóreönsk bardaga-og sjálfsvarnaríþrótt. Hún er þróuð frá gamalli hernaðarlist Kóreumanna og byggist fyrst og fremst á sjálfsvörn þar sem fæturnir spila aðalhlutverkið.

Taekwondo skiptist í tvo meginhluta: Poomse og Sparring.
Poomse er sú hlið Taekwondo þar sem einn aðili framkvæmir tæknilegu hlið hennar.
Sparring er aftur á móti sjálf bardagahliðin þar sem tveir eða fleiri aðilar koma saman og berjast.

Taekwondo er viðurkennd af Alþjóðlega Ólympíuráðinu og var sýningaríþrótt á leikunum 1988 og 1992. Taekwondo var í fyrsta skipti opinber keppnisíþrótt á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000.
The World Taekwondo Federation eru alþjóðleg Taekwondo-sambönd. Heimasíða WTF

Öll íslensku Taekwondofélögin eru í WTF.

Orðið Taekwondo

Orðið Taekwondo er hægt að skrifa á margan hátt. TaeKwonDo, Tae Kwon Do, TaeKwon-Do, Taekwondo, TaeKwondo og svo framvegis. Oftast skammstafað TKD.

Við höfum valið hér á Íslandi að skrifa Taekwondo sem "Taekwondo" eftir reglum WTF.
Taekwondo skiptist í þrennt, Tae, Kwon og Do.

  • Tae - Fótur eða fótahreyfing
  • Kwon - Hnefi eða handahreyfing
  • Do - "The Way". Aðferðin eða lífstíll

Hvað öðlastu í taekwondo?

Líkamlegt jafnvægi, styrkur, snerpa og liðleiki eru þættir sem eflast til muna. Há spörk eru eru mikið notuð og þess vegna eru góðar teygjuæfingar stór hluti íþróttarinnar.

Einbeiting, aukið sjálfstraust, sjálfsvirðing, sjálfstjórn og bætt dómgreind stuðla að heilbrigðri hugsun. Sjálfsagi og sjálfsstjórn skipa stóran sess í íþróttinni, ásamt gagnkvæmu trausti nemanda og kennara.

Alhliða jafnvægi og heilbrigð sál í hraustum líkama er mjög mikilvægt þegar kemur að Taekwondo. Bættar lífsvenjur, sjálfsagi, kurteisi og virðing í garð annarra eru einkennandi fyrir sanna Taekwondo-iðkendur.

Grunnþættir í taekwondo

1. Poomsae: Er röð grunntækniatriða gegn ímynduðum andstæðing. Til að öðlast hærra belti verður maður að ná tökum á nýrri tækni, í nýjum formum. Alls eru það tíu form sem þarf að læra til að öðlast réttindi til að taka svartabeltispróf. Hér að neðan má sjá nöfn átta þeirra.

Nr Nafn
1 Taegeuk Il Jang
2 Taegeuk Ee Jang
3 Taegeuk Sam Jang
4 Taegeuk Sa Jang
5 Taegeuk Oh Jang
6 Taegeuk Yook Jang
7 Taegeuk Chil Jang
8 Taegeuk Pal Jang


2. Kyorugi (Sparring): Bardagi. Til eru nokkrar útgáfur af bardaga, s.s. ólympísk keppni, sjálfvörn, æfingabardagi, skrefabardagi o.s.frv.

3. Kyokpa: Brot. Til að sannreyna raunverulegan styrk, hugrekki og ekki síst tækni nemanda eru brot ákveðinn þáttur af iðkun Taekwondo. Byrjað er að kenna undirstöðu brota með léttum plastplötum. Þegar iðkendur verða betri og fá hærra belti er farið að brjóta spýtur, flísar og loks múrsteina fyrir þá sem náð hafa svarta beltinu.

4. Kibohn: Grunntækni. Líkamlegar æfingar og öll grunntækni fylgir alltaf Taekwondo, sama þótt viðkomandi sé orðin meistari. Einföldustu spörkin og armbeygjur eru alltaf á dagskrá.