Frístundastyrkur

Frístundastyrkur vegna íþrótta- og tómstundastarfs í Sveitarfélaginu Árborg

Sveitarfélagið Árborg veitir öllum börnum og ungmennum á aldrinum 5-17 ára með lögheimili í Árborg sérstaka niðurgreiðslu á íþrótta- og frístundastarfi, svonefndan frístundastyrk. Á hverju ári fær því hver iðkandi kr. 45.000 til að niðurgreiða viðurkennt íþrótta- og tómstundastarf.

Tilgangur frístundastyrksins er að jafna tækifæri barna og ungmenna á aldrinum 5-17 ára til iðkunar íþrótta og/eða tómstunda. Það er von bæjarstjórnar að frístundastyrkurinn muni leiða af sér fjölgun iðkenda í íþrótta- og tómstundastarfi og gefi börnum og ungmennum innan Árborgar aukinn möguleika á að stunda það íþrótta- eða frístundastarf sem þau hafi áhuga á.

Sveitarfélagið Árborg hefur frá 1. september 2008 niðurgreitt íþrótta- og tómstundastarf fyrir börn og ungmenni í sveitarfélaginu. Fyrst um sinn voru greiddar kr. 10.000. á ári með hverju barni. Árið 2014 voru greiðslurnar hækkaðar upp í kr. 15.000, í upphafi árs 2018 voru þær hækkaðar upp í kr. 30.000, í upphafi árs 2019 voru þær hækkaðar upp í kr. 35.000 og eru nú árið 2024 kr. 45.000.

Íþrótta- og menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar


Upplýsingar um frístundastyrk í Sveitarfélaginu Árborg.

Sótt er um frístundastyrk á Mín Árborg.

Margar rannsóknir hafa sýnt fram á það að þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi minnki líkur á því að börn leiðist inn á óæskilegar brautir, byrji að reykja, nota munn- eða neftóbak, drekka áfengi eða sýni aðra frávikshegðun. Því er til mikils að vinna að hvetja börn til þátttöku í því fjölbreytta starfi sem stendur til boða í sveitarfélaginu, og um leið að nýta sér frístundastyrkinn.

Athugið að umsóknarhæft íþrótta- og frístundastarf þarf að vera námskeið eða æfingar sem standa í tíu vikur eða lengur.

Öll ráðstöfun frístundastyrkja hjá Sveitarfélaginu Árborg er rafræn í gegnum Mín Árborg. Kerfið er unnið í samstarfi við skráningar- og greiðslukerfið Sportabler þannig að foreldrar geta nýtt frístundastyrkinn strax og gengið er frá skráningu og greiðslu fyrir iðkanda í viðurkennda frístund.

Hægt er að nota frístundastyrkinn frá 1. janúar til 31. desember ár hvert.
Fyrir árið 2024 er því hægt að sækja um til 31. desember 2024.
Frístundagreiðsla fellur niður fyrir árið 2024 hafi ekki verið sótt um fyrir þann tíma.