Afreks og styrktarsjóður

Reglugerð fyrir Afreks- og styrktarsjóð Umf. Selfoss og Árborgar

1. grein
Sjóðurinn heitir Afreks- og styrktarsjóður Umf. Selfoss og Árborgar.

2. grein
Tilgangur sjóðsins er að styrkja þá einstaklinga eða hópa innan Umf. Selfoss sem náð hafa
umtalsverðum árangri í íþrótt sinni. Einnig að styðja við námskeið og menntun þjálfara,
leiðbeinenda eða félagsmanna sem eflir þá í starfi innan félagsins. Þá er sjóðnum ætlað að
styðja við nýmæli í starfi innan félagsins.

3. grein
Eingöngu félagar og keppnishópar innan Umf. Selfoss sem stunda íþróttir sem viðurkenndar
eru af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands geta sótt um styrk úr sjóðnum. Íþróttakarl og
íþróttakona ársins skulu fá ákveðna upphæð við kjör ár hvert án umsóknar. Stjórn sjóðsins
skal ákveða upphæð hverju sinni. Þeir sem sækja um styrki vegna námskeiða, menntunar eða
nýmæla í starfi skulu einnig vera félagar innan Umf. Selfoss eða starfa innan félagsins. Sama
á við um deildir eða hópa.

4. grein
Stjórn sjóðsins skipar framkvæmdastjórn Umf. Selfoss: Formaður, varaformaður, gjaldkeri,
ritari og meðstjórnandi. Til vara skulu skipaðir einstaklingar úr aðalstjórn félagsins. Varsla
sjóðsins skal vera í höndum gjaldkera félagsins.

5. grein
Tekjur sjóðsins eru árlegt framlag Sveitarfélagsins Árborgar, samkvæmt þjónustusamningi
þess við Umf. Selfoss. Framlagi sveitarfélagsins skal haldið aðskildu í bókhaldi sjóðsins.
Aðrar tekjur eru núverandi tekjustofn afreksmannasjóðs Umf. Selfoss, skv. ákvörðun
stjórnar, ásamt almennum framlögum. Framlög er sjóðnum berast og óskað er eftir að gangi
til ákveðins íþróttamanns/manna skulu ganga beint til viðkomandi aðila.

6. grein
Stjórn sjóðsins getur veitt styrk til einstaklinga innan deilda félagsins ef viðkomandi
uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
Afreksfólk sem hefur verið valið til keppni fyrir Íslands hönd eða einstök sérsambönd innan
ÍSÍ. Miða skal við að viðkomandi keppi á eða hafi möguleika á þátttöku á Ólympíu-, Heims-,
Evrópu- eða Norðurlandameistaramótum ásamt landsleikjum eða landskeppnum á vegum
sérsambanda ÍSÍ.

a) Annars vegar skv. ákvörðun stjórnar sjóðsins til afreksmanna sem eru í fremstu röð á
Íslandi og þátttakendur í keppnum í alþjóðlegum verkefnum.

b) Hins vegar skv. ákvörðun stjórnar sjóðsins til afreksmanna sem keppa fyrir hönd yngri
landsliða Íslands. til að mæta kostnaði s.s. ferða- og gistikostnaði vegna æfinga og/eða
keppni utan sveitarfélagsins á vegum landsliðs á vegum ÍSÍ eða sérsambanda innan ÍSÍ.
Framvísa þarf reikningum með umsókn.
Hver einstaklingur getur fengið úthlutað einu sinni á ári.

7. grein
Stjórn sjóðsins getur veitt styrk til deilda innan félagsins ef þær uppfylla annað eftirtalinna
skilyrða:

a) Styrkur vegna útlagðs kostnaðar deilda vegna þjálfara og/eða leiðbeinenda sem starfa á
vegum félagins vegna þátttöku í viðurkenndum námskeiðum eða annarrar viðurkenndrar
menntunar. Einnig til deilda, ráða, nefnda eða hópa innan félagsins er tengist gæðastarfi eða
skipulögðu fræðslustarfi. Greitt er hámark kr. 30.000- vegna námskeiðs innanlands og kr.
50.000- vegna námskeiðs erlendis. Framvísa þarf reikningum með umsókn.

b) Styrkur fyrir nýmæli í starfi. Miða skal við að um tímabundinn styrk sé að ræða meðan
verið er að skjóta stoðum undir viðkomandi nýmæli. Stjórn sjóðsins metur hve oft sami eða
sams konar viðburður getur fengið styrk. Almennir íþróttaviðburðir eða mót falla ekki undir
þennan lið. Framvísa þarf reikningum með umsókn.

8. grein
Þær upphæðir sem nefndar eru í reglugerðum eru til viðmiðunar en styrkurinn miðast við
fjárhagslega getu sjóðsins hverju sinni og tilkostnað vegna þátttöku. Styrkveitingar úr
sjóðnum fara fram á uppskeruhátíð íþrótta- og menningarnefndar Árborgar sem fram fer
árlega milli jóla og nýárs.

9. grein
Umsóknir um styrk úr sjóðnum skulu berast sjóðsstjórn eigi síðar en 1. desember ár hvert og
vera undirritaðar af formanni/starfsmanni viðkomandi deildar. Ef um er að ræða umsóknir
frá hópum/liðum er fullnægjandi að formaður/starfsmaður deildar undirriti umsókn. Í
umsókn skal gerð grein fyrir þeim kostnaði sem viðkomandi kann að hafa orðið fyrir eða
áætluðum kostnaði.

10. grein
Reglugerðin var samþykkt á fundi aðalstjórnar 6. mars 2019 og gildir frá 1. janúar 2019. Um
leið falla úr gildi eldri reglugerðir um starfsemi sjóðsins.