Saga júdódeildar

Upphaf júdó á Selfossi

Veturinn 1983 – 1984 hóf Sigurður Kr. Jóhannsson að kenna júdó í Sundhallarkjallaranum á Selfossi. Sigurður var annálaður júdókappi sem unnið hafði til margra verðlauna hér heima sem erlendis. Júdó-deild Umf. Selfoss hóf starfsemi sína 1984, en formlegur stofnfundur var síðan haldinn í Tryggvaskála þann 15. júní 1985. Fyrsti formaður júdódeildar var Heiðar Snær Engilbertsson. Aðrir í stjórn voru Ingimundur Sigmundsson gjaldkeri, Jóakim Tryggvi Andrésson, Bárður Árnason og Valdimar Baldursson. Í varastjórn voru Kristinn Ingvarsson, Ragnar Pálsson og Einar Tryggvason.

Vegna þrengsla í Sundhöllinni voru æfingar stundaðar í Heilsusporti frá því um haustið 1984. Þess má geta að haustið 1984 hófu 25 einstaklingar júdóæfingar í tveimur flokkum þ.e. byrjendur og lengra komnir. Hópurinn æfði þrisvar í viku en grisjaðist aðeins er líða tók á veturinn. Heilsusport var staðsett þar sem í dag er kjallari bókasafns Árborgar. Þar voru æfingar fram til 1989. Þjálfarar á þessum tíma voru Guðmundur Smári Ólafsson og Magnús Steinsson.

Aðstöðuleysi háði starfi deildarinnar eftir að Heilsusporti var lokað 1989. Iðkendum fækkaði, en nokkrir sóttu m.a. æfingar til Reykjavíkur. Lítið starf var því í deildinni um tveggja ára skeið eða þar til að líkamsræktarstöðin Styrkur opnaði í janúar 1991. Þá fóru æfingar fram þar og var æft af miklum krafti fram á vor. Um haustið 1991 leigði júdódeildin æfingahúsnæði að Vallholti 17. Að þjáfuninni á þessum árum og fram til ársins 1995 komu aðallega tveir pólverjar þeir Slawomir Mikael Kryzmann og Stanislaw Michalowsky. Stjórnarmenn á þessu tímabili voru Jóakim T. Andrésson, Guðmundur Smári Ólafsson, Kolbrún Himarsdóttir, Baldur Pálsson og Ásgeir Egilsson. Rekstur deildarinnar var erfiður á þessum tíma m.a. vegna mikils kostnaðar við að leigja húsnæði. Í skýrslu formanns frá 1996 kemur fram að stjórnin hafi setti sér það markmið að greiða niður sem mest af skuldum deildarinnar. Tókst að lækka skuldir úr rúmri milljón í tæpa hálfa það árið og árið eftir var skuldabréfið greitt upp.

Frá 1996 til 1999 voru æfingar stundaðar í kjallara Sundhallar Selfoss við afar þröngan kost. Þjálfarar á þeim tíma voru Guðmundur Smári Ólafsson og Guðmundur Tryggvi Ólafsson. Í desember 1999 fékk deildin afnot af sal sem var í tengslum við íþróttahúsið í Gagnheiði. Flutti deildin nokkru síðar starfsemi sína í Gagnheiði 3 þar sem hún er enn til húsa.

Margir hafa komið að þjálfun júdódeildar síðustu árin, má þar helst nefna: Berg Pálsson, Guðmund Tryggva Ólafsson, Smára Stefánsson, Björn H. Halldórsson og Baldur Pálsson. Síðustu árin hafa verið litlar breytingar á stjórn deildarinnar og hún verið mönnuð þeim Þórdísi Rakel Hansen, Bergi Pássyni, Baldri Pálssyni, Eyjólfi Sturlaugssyni og Guðmundi Tryggva Ólafssyni.

Formenn jódódeildar Umf. Selfoss
1985 Heiðar Snær Engilbertsson
1986 – 1996 Jóakim Tryggvi Andrésson
1997 – 2000 Jón Karl Jónsson
2001 – 2003 Pálmi Egilsson
2004 – 2017 Þórdís Rakel Hansen
2018 – Birgir Júlíus Sigursteinsson