Um deildina

Frjálsíþróttadeild Umf. Selfoss var stofnuð 15. maí 1962. Áður en deildin var stofnuð hafði frjálsíþróttastarf verið undir hatti aðalstjórnar Umf. Selfoss sem stofnað var árið 1936. Frá upphafi hefur markmið deildarinnar verið að halda utan um frjálsíþróttastarf innan Umf. Selfoss, bæði félagslega og íþróttalega. Þess má geta að fyrsti keppandi frá Umf. Selfoss tók þátt í Héraðsmóti HSK á Þjórsártúni árið 1937, en þá hafði Umf. Selfoss nýlega gengið í Héraðssambandið Skarphéðinn. Allt frá þeim tíma og til stofnunar deildarinnar voru frjálsar íþróttir ein aðal íþróttagrein Umf. Selfoss og starf félagsins snerist að mestu leiti um þá grein. Eins og í svo mörgum félögum kom að því að umsvif greinarinnar urðu svo mikil að rétt þótti að stofna sérstaka deild utan um hana. Með því móti hafði sá hópur sem var að vinna í þessu starfi meira um sín mál að segja. Allt frá stofnun deildarinnar hafa aðal verkefni hennar verið að skipuleggja þjálfun fyrir alla aldurshópa í frjálsum íþróttum á Selfossi, ásamt því að skipuleggja og taka þátt í mótum og öðru félagsstarfi.