4 mótsmet og 1 HSK met á Stórmóti ÍR

Hugrún Birna Hjaltadóttir sigraði 300m hlaup á glæsilegu mótsmeti
Hugrún Birna Hjaltadóttir sigraði 300m hlaup á glæsilegu mótsmeti

Stórmót ÍR fór fram helgina 21-22.jan í Laugardalshöll. Fjöldi keppenda frá Frjálsíþróttadeild Selfoss tók þátt með frábærum árangri. Mikið var um persónulegar bætingar en sú skemmtilega hefði hefur skapast á þessu móti að veita þeim einstaklingum viðurkenningu sem ná mestri persónulegri bætingu í hverri grein fyrir sig. Hæst bar árangur hjá þeim Hjálmari Vilhelm Rúnarssyni sem setti þrjú mótsmet og Hugrúnu Birnu Hjaltadóttir sem setti eitt mótsmet. Anna Metta Óskarsdóttir náði einnig frábærum árangri þegar hún bætti HSK metið í þrístökki í flokki 13 ára.

12 ára piltar- Magnús Tryggvi Birgisson sigraði kúluvarp með því að kasta kúlunni 7.37m og Jósúa Eldar Ragnarsson náði öðru sæti í kúluvarpi með 7.22m löngu kasti.

13 ára piltar- Kári Sigurbjörn Tómasson náði öðru sæti í 60m grindahlaupi á tímanum 13,57s og Stormur Leó Guðmundsson vann bronsverðlaun í kúluvarpi með 6,94m löngu kasti.

15 ára piltar- Hjálmar Vilhelm Rúnarsson var í miklu bætingastuði. Hann bætti hann sig í 6 af þeim 7 keppnisgreinum sem hann tók þátt í og sigraði fimm greinar. Hann sigraði í hástökki, langstökki, kúluvarpi, þrístökki og 300m hlaupi ásamt því að verða í 2.sæti í 60m hlaupi og 60m grindarhlaupi. Hjálmar Vilhelm náði þeim einstaka árangri að setja þrjú mótsmet. Í langstökki með 6.04m, í kúluvarpi með kast upp á 14,68m og í 300m hlaupi á tímanum 40,15sek

16-17 ára piltar- Daníel Breki Elvarsson sigraði í hástökki er hann bætti sig og hoppaði yfir 1.82m og í kúlu var hann líka í bætingastuði er hann varpaði kúlunni 11,14m og fékk silfurverðlaun að launum.

13 ára stúlkur - Anna Metta Óskarsdóttir er í feiknaformi en hún sigraði í hástökki og stangarstökki. Í hástökkinu stökk hún 1,44m og í stangarstökki stökk hún 1,98m. Hún setti síðan glæsilegt HSK-met í þrístökki er hún stökk 10,66m og vann til silfurverðlauna. Í 60m grindahlaupi vann hún til silfurverðlauna á tímanum 10,96s og í langstökki stökk hún 4.73m og vann til bronsverðlauna. Adda Sóley Sæland sigraði kúluvarpið með flottu kasti upp á 10.05m. Hún vann til silfurverðlauna í stangarstökki þar sem hún stökk 1.88m og til bronsverðlauna í 600m hlaupi á tímanum 1:55,62m og í hástökki þegar hún stökk yfir 1.34m.

14 ára stúlkur- Bryndís Embla Einarsdóttir var mjög sigursæl í þessum flokki en hún sigraði í þremur greinum, stangarstökki,  kúluvarpi og hástökki. Hún stökk 2,38m í stangarstökki, varpaði kúlunni 10.15m og stökk 1,50m í hástökki, hún varð síðan í 3.sæti í langstökki og 60m grindarhlaupi. Í langstökkinu stökk hún 4,59m og grindina hljóp hún á 10,44sek. Aldís Fönn Benediktsdóttir varð í 2.sæti í kúluvarpi með flotta bætingu en hún kastaði kúlunni 9.62m.

15 ára stúlkur- Hugrún Birna Hjaltadóttir er í flottu formi þessa dagana en hún setti mótsmet í 300m hlaupi á tímanum 44.05sek. Hún náði einnig þeim glæsilega árangri í langstökki og þrístökki að ná 2.sæti í báðum greinum aðeins 2 cm frá 1.sætinu í báðum greinum. Í langstökkinu stökk hún 5.00m og 10,15m í þrístökkinu. Arna Hrönn Grétarsdóttir bætti sig í hástökki þegar hún vippaði sér yfir 1.42m og vann til gullverðlauna.

16-17 ára stúlkur- Álfrún Diljá Kristínardóttir bætti sig í kúluvarpi er hún varpaði henni 11,52 og vann til gullverðlauna. Ísold Assa Guðmundsdóttir vann til þrennra silfurverðlauna. Hún hljóp 60m grind á tímanum 10,23sek, stökk 4,80m í langstökki og varpaði kúlunni 11,52m. Ísold Assa keppti einnig í stöng í kvennaflokki og uppskar 2.-3.sætið með 2.38m stökki.

Karlaflokkur- Kristinn Þór Kristinsson mætti aftur á brautina eftir nokkra fjarveru en Kristinn er búin að vera einn allra besti 800m og 1500m hlaupari landsins síðasta áratuginn. Kristinn sigraði í 800m hlaupinu á tímanum 1,56,48 mín sem er jafnframt nýtt HSK-met í flokki 30-35 ára karla.

 

 

.