Hugrún Birna með gull á Reykjavíkurleikunum

Hugrún Birna með gullverðlaun fyrir 600m hlaup á Reykjavíkurleikunum
Hugrún Birna með gullverðlaun fyrir 600m hlaup á Reykjavíkurleikunum

Reykjavíkurleikarnir fóru fram í 16.sinn dagana 27.janúar – 5.febrúar. Frjálsíþróttahluti leikanna fór fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal þann 5.febrúar sl. Mótið er boðsmót og er sterkustu frjálsíþróttamönnum landsins boðin þátttaka. Fimm keppendum frjálsíþróttadeildar Selfoss var boðið að taka þátt í mótinu að þessu sinni.

Hin 15 ára stórefnilega Hugrún Birna Hjaltadóttir stóð sig frábærlega þegar hún sigraði í 600m hlaupi í flokki 15 ára og yngri. Hún hljóp vegalengdina á 1:49,82 mín. Henni var einnig boðið að taka þátt í 60m hlaupi þar sem hún kom sjöunda í mark á tímanum 8,62 sek. Bryndís Embla Einarsdóttir tók einnig þátt í 600m hlaupi 15 ára og yngri og endaði hún í 6.sæti á tímanum 1:54,04 mín.

Hinn fjölhæfi efnilegi Hjálmar Vilhelm Rúnarsson endaði í 2.sæti í 600m hlaupi á tímanum 1:33,84 mín og munaði sjónarmun á honum og sigurvegaranum. Hjálmar hljóp síðan 60m hlaup á tímanum 7,89sek og varð í 4.sæti. 

Eydís Arna Birgisdóttir sem er eingöngu 16 ára gömul hljóp 400m í flokki kvenna, langyngst allra keppenda. Hún endaði í 5.sæti á tímanum 62,19 sek og einungis tímaspursmál hvenær hún bætir HSK met Sólveigar Helgu Guðjónsdóttir í flokki 16-17 ára sem er 61,39 sek frá árinu 2013.

Daníel Breki Elvarsson tók þátt í hástökkskeppni karla og vippaði sér yfir 1.75m og endaði í 3.sæti. Daníel Breki er mjög fjölhæfur og tekur þátt í hlaupum, stökkum og köstum með góðum árangri.