Íslandsmeistarar

Anna Metta og Bryndis Embla voru mjög sigursælar á mótinu
Anna Metta og Bryndis Embla voru mjög sigursælar á mótinu

Lið HSK/Selfoss varð Íslandsmeistari á Meistaramóti Íslands í flokki 11-14 ára. Mótið var haldið í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal og mættu rúmlega 300 keppendur til leiks. Stigakeppnin var æsispennandi og var ekki ljóst fyrr en eftir síðustu grein að HSK/Selfoss hafði halað sér inn 496,5 stigum og sigrað stigakeppni mótsins. Breiðablik lenti í öðru sæti með 492 stig og FH náði þriðja sæti með 462,5 stig.

Lið HSK/Selfoss sigraði í tveimur aldursflokkum. Stúlkur 11 ára og 13 ára sigruðu sína flokka en 14 ára stúlkur lentu í öðru sæti eftir spennandi keppni við lið ÍR. Hér fyrir neðan má sjá einstaka árangur hjá keppendum UMF. Selfoss sem stóðu sig frábærlega en hæst bar árangur Bryndisar Emblu Einarsdóttur sem varð tvöfaldur Íslandsmeistari og Önnu Mettu Óskarsdóttur sem varð Íslandsmeistari í þrístökki á nýju HSK meti.

Bryndís Embla Einarsdóttir stóð sig frábærlega á mótinu og varð tvöfaldur Íslandsmeistari í flokki 14 ára. Hún varð Íslandsmeistari í langstökki þegar hún stórbætti sig og stökk 5,04m og var einungis 5 cm frá 39 ára gömlu HSK meti. Hún bætti sig einnig í kúluvarpi þegar hún varpaði kúlunni 10,47m og uppskar gullverðlaun. Hún hélt áfram að bæta sig þegar hún hljóp 60m grindahlaup á tímanum 10,17sek og krækti sér í silfurverðlaun. Hún og Arndís Eva Vigfúsdóttir deildu öðru sæti í hástökki þegar þær stukku báðar yfir 1,46m og að lokum hljóp Bryndís Embla 600m hlaup á tímanum 1:52,67 m og vann til bronsverðlauna. Anna Metta Óskardóttir stóð sig frábærlega á mótinu í flokki 13 ára. Hún varð Íslandsmeistari í þrístökki þegar hún stökk 10,73m og bætti eigið HSK met um 7 cm. Hún vann til silfurverðlauna í hástökki þegar hún sveif yfir 1.44m og hún fékk einnig silfurverðlaun i 60m grindahlaupi er hún hljóp vegalengdina á 10,92sek. Hún vann sér líka inn tvenn bronsverðlaun, í langstökki bætti hún sig þegar hún stökk 4,77m og 60 metrana hljóp hún á 8,85 sek. Að lokum varð hún í öðru sæti í 4x200m boðhlaupi er hún hljóp með sveit HSK/Selfoss. Adda Sóley Sæland kastaði kúlunni 9,90 m og fékk silfurverðlaun að launum og hún náði einnig silfurverðlaunum með sveit HSK/Selfoss í 4x200m boðhlaupi. Þeir Stormur Leó Guðmundsson og Kári Sigurbjörn Tómasson unnu sér inn silfurverðlaun í 4x200m boðhlaupi er þeir hlupu með sveit HSK/Selfoss. Allir aðrir keppendur Umf.Selfoss stóðu sig mjög vel og lögðu sitt af mörkum i stigasöfnun liðsins en 10 efstu í hverri grein ná stigum fyrir sitt félag.