Fagmannlega klárað í Breiðholtinu

Sveinn Aron Sveinsson
Sveinn Aron Sveinsson

Meistaraflokkur karla mætti ÍR í Austurbergi í kvöld, leikurinn endaði með öruggum sigri Selfyssinga 18-28.

Strax í upphafi var ljóst að Selfyssingar ætluðu sér að klára þetta verkefni af miklum krafti og skoruðu þeir fyrstu fjögur mörkin.  Eftir það stimpluðu ÍR-ingar sig betur inn í leikinn og fundu einhver svör við sterkri fimm einn vörn gestanna.  Þannig héldu Breiðhyltingar sér inni í leiknum fyrsta korterið heim að stöðunni 5-8.  Eftir það hlupu Selfyssingar hraðar og kláruðu fyrri hálfleik nokkuð örugglega, hálfleikstölur 7-14.  Selfyssingar héldu uppteknum hætti í upphafi síðari hálfleiks og voru komnir í 11 marka forystu eftir sjö mínútur, 8-19.  Þá komst meira jafnvægi á leikinn, enda úrslitin nánast ráðin.  Selfyssingar rúlluðu mjög vel á mannskapnum rétt eins og ÍR-ingar.  Heimamenn náðu að klóra lítillega í bakkann á þessum síðustu 20 mínútum, en að endingu var öruggur sigur Selfyssinga í höfn, lokatölur 18-28.

Mörk Selfoss: Sveinn Aron Sveinsson 7, Ragnar Jóhannsson 5, Hergeir Grímsson 4, Atli Ævar Ingólfsson 4, Einar Sverrisson 3, Nökkvi Dan Elliðason 2, Hannes Höskuldsson 1, Tryggvi Þórisson 1, Arnór Logi Hákonarson 1.

Varin skot: Vilius Rasimas 15/1 (50%), Alexander Hrafnkelsson 4/2 (57%).

Næsti leikur hjá strákunum er á sunnudaginn, en þá fara þeir í Safamýrina og mæta strákunum hans Basta í Fram.  Sá leikur hefst kl. 19:30 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 sport.  Kl. 13:30 þennan sama dag taka stelpurnar okkar á móti ÍR í Hleðsluhöllinni.  Þessi Grill 66 deildar slagur verður auðvitað í beinni útsendingu á SelfossTV.


Mynd: Sveinn Aron Sveinsson var öruggur í sínum aðgerðum og skoraði 7 mörk, þar af úr öllum 6 vítum sem Selfoss fékk.
Umf. Selfoss / Sigurður Ástgeirsson