Skin og skúrir á handboltasunnudegi

Atli Ævar Ingólfsson
Atli Ævar Ingólfsson

Meistaraflokkar kvenna og karla voru báðir í eldlínunni í dag í Hleðsluhöllinni. Stelpurnar töpuðu fyrir Aftureldingu í fjörugum leik í Grill 66 deild kvenna og strákarnir sigruðu Þórsara örugglega í Olísdeild karla. 

Stelpurnar mætti Aftureldingu í 6. umferð Grill 66 deildarinnar í dag. Leikurinn var jafn fyrstu mínúturnar og var staðan 4-4 eftir um 10. mínútna leik. Þá kom góður kafli Selfyssinga sem skoruðu næstu þrjú mörk og var staðan orðin 7-4 skömmu seinna. Afturelding náði þó að jafna leikinn í 7-7 og var jafnræði með liðunum út fyrri hálfleik. Mosfellingar skoruðu hins vegar tvö síðustu mörkin fyrir leikhlé og var staðan 11-13 þegar stelpurnar gengu inn í búningsklefana. Áfram hélst eins til þriggja marka bil á milli liðanna þar til um 50 mínútur voru búnar af leiknum, þá gerði Afturelding annað áhlaup og komst fimm mörkum yfir. Selfyssingar náðu ekki að klóra í bakkann þrátt fyrir stórleik Áslaugar í markinu. Lokatölur 21-28.

Mörk Selfoss: Rakel Guðjónsdóttir 5, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 3, Elína Krista Sigurðardóttir 3, Agnes Sigurðardóttir 3, Katla Björg Ómarsdóttir 3, Ivana Raickovic 2, Inga Sól Björnsdóttir 1, Lara Zidek 1.

Varin skot: Áslaug Ýr Bragadóttir 18 (40%)

Næsti leikur hjá stelpunum er gegn U-liði Vals á Hlíðarenda á miðvikudagskvöldið 10. feb kl 19:30.  Næsti heimaleikur er svo gegn ÍR eftir viku, sunnudaginn 6. feb kl 13:30, að sjálfsögðu í þráðbeinni á SelfossTV.

Strákarnir völtuðu svo yfir Þórsara í skemmtilegum leik í 8. umferð Olísdeildar karla. Í stuttu máli tóku Selfyssingar yfirhöndina strax í leiknum og létu forskotið aldrei af hendi. Frábær sóknarleikur og þéttur varnarleikur skilaði átta marka forystu í hálfleik, 20-12. Þór byrjaði betur í seinni hálfleik og byrjuðu á 5-1 kafla og minnkuðu muninn í fjögur mörk, 21-17. Selfoss stillti fókusinn aftur og sigldu að lokum níu marka sigri í höfn, 33-24.

Mörk Selfoss: Atli Ævar Ingólfsson 7, Einar Sverrisson 5, Hergeir Grímsson 4, Sveinn Aron Sveinsson 4, Ragnar Jóhannsson 3, Guðmundur Hólmar Helgason 3, Magnús Öder Einarsson 2, Hannes Höskuldsson 2, Tryggvi Þórisson 2, Nökkvi Dan Elliðason 1

Varin skot: Vilius Rasimas 16 (43%) og Alexander Hrafnkelsson 2 (40%)

Næsti leikur hjá strákunum er gegn ÍR á fimmtudaginn kl 20:15 í Austurbergi og verður leikurinn í beinni á ÍR TV.  Fylgist með Selfoss handbolta á Facebook þar sem við munum auglýsa þá útsendingu betur.  Leikurinn gegn ÍR er fyrsti leikurinn í þriggja leikja útileikjahrinu.


Mynd: Atli Ævar skoraði sjö mörk úr sjö skotum gegn Þór. 
Umf. Selfoss / SÁ