Tap á Hlíðarenda

Agnes Sigurðardóttir
Agnes Sigurðardóttir

Meistaraflokkur kvennahéldu vegferð sinni í Grill 66 deildinni áfram í Origo höllinni í kvöld.  Þar töpuðu þær fyrir sterku liði Val U, 26-17.

Valsstúlkur byrjuðu leikinn af miklum krafti og áttu Selfyssingar í töluverðum vandræðum í sókninni.  Valur gekk á lagið og náði hægt og bítandi að byggja upp níu marka forystu, staðan 12-3 eftir tuttugu mínútur.  Eftir það komst meira jafnvægi á leikinn og skoruð bæði lið fjögur mörk fram að hálfleik þar sem staðan var 16-7.  Selfyssingar virtust vera búnar að ná mesta skrekknum úr sér í síðari hálfleik og gekk bæði vörn og sókn betur.  Selfyssingar náðu að minnka forystu Valsstúlkna aðeins án þess þó að ógna þeim að ráði.  Í lokin dró aftur í sundur á milli liðanna og endaði leikurinn með sama mun og í hálfleik, lokatölur 26-17.

Mörk Selfoss: Agnes Sigurðardóttir 5, Ivana Raičković 3, Sólveig Ása Brynjarsdóttir 3, Rakel Guðjónsdóttir 2, Ragnheiður Grímsdóttir 1, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 1, Þrúður Sóley Guðnadóttir 1, Katla Björg Ómarsdóttir 1.

Varin skot: Áslaug Ýr Bragadóttir  5 (23%), Lena Ósk Jónsdóttir 3 (23%)

Þetta er búið að vera erfitt hjá stelpunum sem eru í leit að jafnvægi eftir meiðslahrinu.  Næsti leikur liðs Selfoss er gegn ÍR í Hleðsluhöllinni á Sunnudag kl. 13:30 og verður í beinni á SelfossTV.  Sama kvöld kl. 19:30 leika strákarnir við Fram í Safamýrinni og er sá leikur í beinni á Stöð 2 sport, fyrst eiga þeir þó leik gegn ÍR á morgun fimmtudag kl. 20:15 og verður hann sýndur á ÍR TV.

---

Mynd: Agnes var öflugust allra í sóknarlínunni, skoraði 5 mörk og átti tvær stoðsendingar.
Umf. Selfoss / ÁÞG